131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[14:09]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 75/2001, um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

(Forseti (GÁS): Ég bið þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég er þakklátur fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hefur fallist á að vera viðstaddur umræðuna en hefði auðvitað kosið að hæstv. samgönguráðherra væri það einnig. Ég tel að full þörf sé á að ræða þetta mál í fjárhagslegu samhengi en ekki síður sem fjarskiptamál. Æskilegast væri að báðir þeir ráðherrar sem með þau mál fara væru til svara og þátttöku í umræðunni.

Efni frumvarpsins er einfalt og skýrt. 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga þessara skal ríkissjóður halda óskertum hlut í fyrirtækinu, a.m.k. til ársloka 2008. Fyrirtækinu skal falið að gera sérstakt átak á þeim tíma til að bæta fjarskipta- og gagnaflutningakerfi landsins með það að markmiði að allir landsmenn, án tillits til búsetu, eigi kost á nýjustu og fullkomnustu tækni á þessu sviði. Heimilt er að lækka eða fella niður arðgreiðslur í ríkissjóð á móti þeim fjárfestingum fyrirtækisins í þessu skyni sem síst eru arðbærar, samkvæmt nánari reglum er fjármálaráðherra setur.“

Frumvarpið felur það í sér efnislega að horfið verði frá hugmyndum um sölu eða endanlega einkavæðingu Landssíma Íslands hf. sem hefur með endurmörkun, eins og það heitir mun heita á fínu máli, tekið að kalla sig Símann. Afli fyrirtækisins og fjárhagslegum burðum, sem eru miklir, verði þess í stað beitt til að gera brýnar og löngu tímabærar úrbætur af ýmsu tagi á fjarskipta- og gagnaflutningakerfi landsins. Fyrirtækið er þar í algerri lykilstöðu. Það hefur eitt yfir að ráða grunnneti til fjarskipta, símaþjónustu og gagnaflutninga, sem og farsímaneti o.s.frv. sem þekur nokkurn veginn landið allt.

Þetta frumvarp var flutt áður á síðasta þingi en var þá eigi útrætt. Þar sem aðstæður eru í öllum aðalatriðum óbreyttar er það endurflutt nú. Að vísu er það svo, herra forseti, að í tengslum við stólahrókeringar ríkisstjórnarflokkanna hefur formennskan í einkavæðingarnefnd færst frá Sjálfstæðisflokki til Framsóknarflokks. Hún tilheyrir forsætisráðuneytinu. Þar er því komin upp sú kúnstuga staða að Framsóknarflokkurinn hefur forgöngu um það mál og forustuna á hendi í þeim efnum að einkavæða Símann.

Auðvitað hefði verið stórkostlega gaman að hafa hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson á fundinum til að svara fyrir hlut Framsóknar í þessu máli. Kannski verða einhverjir af þingmönnum flokksins, sem eru hér enn þá viðstaddir, til að gefa okkur innsýn í það hvernig Framsóknarflokknum líður og hvaða meiningar hann hefur um málið, eins og það stendur núna.

Einnig hafa orðið þau tíðindi að Landssíminn hefur ekki setið aðgerðalaus síðustu mánuðina áður en þessi „taka 2“, önnur tilraun til einkavæðingar á Landssímanum á að hefjast. Síminn keypti mjög stóran hlut í fjölmiðlafyrirtæki á dögunum, í Íslenska sjónvarpsfélaginu sem rekur sjónvarpsstöðina Skjá 1 og keypti sýningarréttinn á enska fótboltanum í leiðinni. Hann er þar með orðinn einn af samkeppnisaðilunum á fjölmiðlamarkaði fyrir utan það að vera fjarskiptafyrirtæki í algerri einokunaraðstöðu, í lykilstöðu á öllum sviðum fjarskipta og með hreina einokun að sumu leyti hvað eign þess á grunnnetinu varðar.

Það væri áhugavert að heyra, þótt seint sé, sjónarmið hæstv. fjármálaráðherra sem fer með eignarhlutinn í þessum efnum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur látið þannig þegar Síminn hefur staðið, bæði nú og áður, í æfingum af þessu tagi að þær séu eigandanum algerlega óviðkomandi. Þetta er eina hlutafélagið í landinu sem ég veit um sem er í eigu eins aðila upp á 99% en eigandanum kemur ekkert við hvað fyrirtækið gerir, hefur enga skoðun á því og telur það sér algerlega óviðkomandi að fyrirtækið gjörbreyti um stefnu þannig að augljóslega sé um að ræða breytingu í áherslum og stefnu fyrirtækisins, á ákvæðum í samþykktum þess þar sem áskilið er samþykki hluthafafundar.

Það er því furðulegt að hæstv. fjármálaráðherra hafi reynt að kaupa sér algera fjarvistarsönnun frá því að það komi honum við, fjármálaráðherra nú og samgönguráðherra áður, hvort Síminn fjárfestir í Búlgaríu eða gerist fjölmiðlafyrirtæki.

Það stendur hvergi, hvorki í lögunum né í samþykktum fyrirtækisins að það sé megintilgangurinn með starfsemi þess, þvert á móti. Tilgangurinn með starfsemi Símans eru fjarskipti og afleidd starfsemi.

Það er skoðun okkar í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs að það séu engin haldbær rök fyrir einkavæðingu Símans. Að fyrirtækið sé, eins og allt er í pottinn búið og við aðstæður í landinu okkar, langbest komið áfram sem öflugt almannaþjónustufyrirtæki í opinberri eigu. Með því er hvort tveggja í senn hægt að ná fram þeim markmiðum, sem menn eru vonandi sammála um að séu aðalatriðið, að tryggja öllum landsmönnum góða þjónustu á þessum sviðum, að jafna þann aðstöðumun sem er á grundvelli búsetu hvað varðar aðstöðu manna til gagnaflutninga og fjarskipta og í leiðinni á ríkið þetta ágætlega arðbæra fyrirtæki og hefur bara dágóðan arð af því. Ég sé því ekki að það sé neitt að því fyrir ríkið að eiga fyrirtæki. Það er fullkomlega samrýmanlegt leikreglum í viðskiptalífinu og samkeppnisreglum sem eru að gefa af sér arð af stærðargráðunni 2 milljarða á ári til viðbótar þeim sköttum sem það greiðir til hins opinbera.

Það er líka ljóst að mikilvægi fjarskipta og gagnaflutninga í nútímasamfélagi er nánast óumdeilt. Af þeim sökum hafa menn víða valið þá leið að fara af mikilli gát í snöggar breytingar, m.a. og ekki síst á eignarhaldi þeirra stóru fyrirtækja sem byggðust upp á tímum einkaleyfa og eru í lykilstöðu í fjarskiptum viðkomandi landa. Ríkisstjórnin verður að svara því og ekki síst Framsóknarflokkurinn sem fer nú með málið í formi formennsku í einkavæðingarnefnd: Hverju sætir það að hér uppi á Íslandi, þar sem aðstæður fyrir eiginlega samkeppni á þessu sviði úti um allt land eru miklu, miklu takmarkaðri en í þéttbýlum milljónasamfélögum t.d. úti í Evrópu, hverju sætir það þá að hér á að fara miklu grófari leið í þessum efnum, ef selja á fyrirtækið í einu lagi og jafnvel ráðandi hlut til eins aðila, en menn hafa valið að gera t.d. í Noregi, Þýskalandi, Frakklandi og víðar í Evrópu? Hér á að fara hina ómenguðu frjálshyggjuleið, ef þær fréttir eru réttar að til standi að selja fyrirtækið á einu bretti með þessum hætti.

Það er athyglisvert að hægri stjórnin í Noregi hefur farið mjög hægt í sakirnar í því að draga úr eignarhlut ríkisins í stóra norska símafyrirtækinu Telenor. Þegar því var breytt í hlutafélag og það skráð á markað í desember 2000 seig hlutur ríkisins niður í 77%. Síðast þegar ég fór inn á heimasíðu fyrirtækisins átti norska ríkið enn þá milli 53% og 54% í Telenor og það eru engin áform um að fara þar út í snöggar breytingar. Á móti ríkiseigninni hefur komið mjög dreifð eignaraðild almennings í Noregi og í nokkrum mæli eign erlendra aðila þannig að hluthafar í norska símanum eru milli 50 og 60 þús.

Hverju sætir að ríkisstjórnin á Íslandi, og Framsóknarflokkurinn núna í forustu, ætlar að taka þetta fyrirtæki okkar, við okkar sérstöku aðstæður í okkar fámenna og strjálbýla landi og markaðsvæða það á einu bretti? Ég bið um skýringar á því.

Menn hafa líka talið það skynsamlega ráðstöfun fjármuna að innleysa í áföngum eign ríkisins ef menn ætla að gera það á annað borð víðast hvar í kringum okkur. Franska ríkið er t.d. að lækka eignarhlut sinn í Telefrance núna, ekki vegna þess að menn vilji það endilega, heldur vegna þess að þeir eru að láta undan þrýstingi Evrópusambandsins til að laga fjárhagsstöðu ríkisins og koma henni inn fyrir viðmiðunarmörk Evrópska efnahags- og myntbandalagsins. Enn á þó franska ríkið meiri hluta í fyrirtækinu og ætlar sér að verja meiri hluta í því, a.m.k. um sinn. Það virðist ekki vera vandamál í þeim ríkjum sem öll eru undirseld samkeppnisreglum Evrópska efnahagssvæðisins, þ.e. Noregur, Þýskaland og Frakkland, að ríkið haldi eignarhlut sínum og eigi þessi kjölfestufjarskiptafyrirtæki og m.a. í gegnum þá eign nái að hafa áhrif á þróunina og tryggja tiltekin samfélagsleg og byggðapólitísk markmið.

Ég hvet menn til þess að fara inn á heimasíðu norska símans og lesa hvernig fjallað er um þessa hluti þar í stefnumörkun fyrirtækisins, sem tekur sínar samfélagslegu skyldur alvarlega og lítur á sig sem þjóðarfyrirtæki, almenningsþjónustufyrirtæki, þó svo að það sé orðið í blandaðri eign. En það virðist annað upp á teningunum hér, bæði hjá stjórnendum Símans, sem hafa tekið að sér að skilgreina fyrirtækið í æ ríkara mæli á talsvert annan veg og virðast áhugasamari um að taka þátt í fjárfestingarævintýrum í útlöndum og ráða fokdýr erlend ráðgjafarfyrirtæki til að kaupa fyrirtækinu andlitslyftingu en endilega að axla skyldur sínar alvarlega gagnvart óskum t.d. hvaðanæva að af landsbyggðinni um úrbætur í farsímaþjónustunni. Það er kannski að verða hvað tilfinnanlegast götótt t.d. hvað varðar möguleika manna til atvinnurekstrar víða í strjálbýlinu á Íslandi þar sem gefur augaleið að menn eru illa settir ef þeir hafa ekki aðgang að farsímaþjónustu svo að maður tali nú ekki um að í æ ríkara mæli er farsíminn að verða að öryggistæki t.d. meðfram þjóðvegum landsins.

Aðferðafræði hæstv. ríkisstjórnar hvað varðar einkavæðingu er kapítuli út af fyrir sig. Við minnumst þess, herra forseti, þegar þessi leiðangur var á æskuárum sínum, ef við getum sagt sem svo, einkavæðingarleiðangur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þá var mikið lagt upp úr dreifðri eignaraðild og það var mikið talað um hættuna á því að völd og áhrif í viðskiptalífinu söfnuðust á of fáar hendur. Það var talað um að mikilvægt væri að þjóðin yrði þátttakandi í þessu og að það yrði almennt eignarhald á bönkum eða þess vegna Símanum, samanber fyrri hugmyndir um einkavæðingu hans.

Þegar tilraunin var gerð á haustdögum 2001 var sett upp heilmikið móverk utan um það hvernig átti að selja svo og svo stóran hlut í áskrift til starfsmanna og almennings, svo og svo mikið í tilboðssölu í viðbót og svo átti að velja kjölfestufjárfesti til að kaupa 25% og með kauprétti 10% í viðbót. Þetta hrundi nú allt saman eins og menn muna heldur hressilega og varð af því eitthvert mesta klúður sem sögur fara af af þessu tagi. En eitthvað fengu þeir fyrir sinn snúð, fínu ráðgjafarnir, voru það ekki PriceWaterhouseCoopers og Búnaðarbankinn sem voru arkitektar að allri snilldinni og verðlögðu Símann á rúma 40 milljarða kr.?

En það er ekki eins og ríkisstjórnin hafi lært eitthvað af þessu. Nú á að fara aftur af stað, prjóna upp með nýja aðferðafræði, sem að vísu liggur ekki ljós fyrir enn þá en tilgangurinn helgar meðalið, hversu skynsamlegt eða öllu heldur og því miður óskynsamlegt sem það er.

Eins og ég kom að áður er ekki eins og það sé eitthvað sem knýi á í þessum efnum, þetta er hrein pólitísk ákvörðun. Það eru engar aðfinnslur gerðar við það út frá samkeppnisreglum, þau mál eru öll leysanleg og það er ekki eins og verðmæti Símans séu að gufa upp miðað við afkomu fyrirtækisins undanfarin missiri og það er ekki eins og óskað sé eftir þessu af þjóðinni. Það er öðru nær. Það liggur fyrir ítarleg og vönduð skoðanakönnun frá skoðanakönnunarfyrirtækinu Gallup sem spurði að þessu á útmánuðum árið 2002. Þetta var skoðanakönnun sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lét Gallup gera fyrir sig og í ljós kom að yfir 60% af þeim sem afstöðu tóku vildu að Landssíminn yrði áfram í opinberri eigu. Ég fullyrði að t.d. úti á landsbyggðinni er varla finnanlegur maður sem mælir því bót að einkavæða Símann. Það eru einstöku kannski nógu glerharðir og helbláir sjálfstæðismenn sem af flokkshollustu telja sig í orði kveðnu þurfa að halda fram þeirri afstöðu, en margir slíkir hafa sagt við mig undir fjögur augu að þeir hafi engan áhuga á því og vildu betur að þeirra menn létu það í friði.

Svo að maður tali nú ekki um Framsóknarflokkinn. Þarna er á ferðinni enn eitt málið þar sem forusta Framsóknarflokksins er einfaldlega úti í mýri, er að láta hafa sig í að fylgja fram stefnu, frá Sjálfstæðisflokknum auðvitað, sem er algerlega gagnstæð því sem þeir sem enn styðja flokkinn í raun og veru vilja. Ég fullyrði það. Reyndar má skoða það ef menn hafa áhuga á hvernig þeir skiptust á flokka sem tóku afstöðu í skoðanakönnuninni á sínum tíma. Ég get fullvissað menn um það að framsóknarmenn voru ekki síður mótfallnir því en kjósendur annarra flokka, nema þá helst kjósendur Vinstri grænna, að einkavæða Símann. Ég hygg t.d. að það hafi verið mun meiri stuðningur við það í röðum stuðningsmanna Samfylkingarinnar, enda ýmsir hægri kratar þar á ferð, að einkavæða Símann en hjá Framsókn. Það er sem sagt næstum tveggja þriðju hluta stuðningur meðal almennings í landinu við það að þjóðin eigi Símann áfram sem almenningsþjónustufyrirtæki og í gegnum þá eign sína og þá stefnu sem fyrirtækinu er gert að framfylgja nái menn fram þeim byggðapólitísku og félagslegu markmiðum sem menn eru auðvitað að sækjast eftir.

Setjum þetta svo augnablik í samhengi við þá umræðu sem hér hefur orðið um samþjöppun valds og auðs í kjölfar markaðs- og einkavæðingar sem hefur verið að ganga yfir í samfélaginu. Ég minni á ræðu fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í marsmánuði síðastliðnum. Ætli það megi ekki lesa út úr þeim orðum talsverðar áhyggjur af því hvernig ýmsir stórir hringar hafi verið að sölsa hlutina undir sig? Það liggur fyrir að einmitt sumir þeir sömu og fyrrverandi forsætisráðherra ýmist nafngreindi eða væntanlega hafði í huga í þeirri ræðu hafa áhuga á Símanum, hafa opinberlega lýst því yfir að þeir hafi áhuga á Símanum, ekki endilega sem innlendu fyrirtæki til að reka sem slíkt, nei, heldur mögulega sem stökkpalli í útrás, nota Símann sem stökkpall í fjárfestingarleiðangra erlendis, gjarnan í Austur-Evrópu þar sem ýmislegt getur komið upp eins og dæmin sanna.

Er það þá innlegg í þetta og áhyggjur manna af þessu? Það er líka fróðlegt að setja þetta í samhengi við hið margrómaða fjölmiðlamál og áhyggjur manna af samþjöppun á því sviði. Nú hefur Síminn ákveðið að því er virðist athugasemdalaust af hálfu eigandans og þess sem með það fer, hæstv. fjármálaráðherra, að gerast fjölmiðlafyrirtæki. Síminn er væntanlega markaðsráðandi fyrirtæki. Muna menn eitthvað eftir því í frumvarpi sem hér var að veltast í þinginu í vor og sumar að markaðsráðandi fyrirtæki á öðrum sviðum viðskipta ættu ekki að eiga mikið í fjölmiðli? Ætli nokkur deili nú um að Síminn sé markaðsráðandi? Það er ótrúlegt að ríkisstjórnin skuli ekki velja þann kost að staldra við.

Staðreyndin er sú að reynslan af því að einkavæða fjarskiptafyrirtæki í lykilstöðu af þessu tagi eins og Síminn okkar er, eins og síminn í Noregi, Danmörku eða Nýja-Sjálandi er, er mjög blendin. Reynsla Nýsjálendinga af því er herfileg. Ég hvet menn til að kynna sér hana, ég hef áður nefnt það hér. Hvernig hefur það leikið fjarskiptamálin í því landi og hver er útkoman fyrir nýsjálenskan almenning? Hver er útkoman fyrir strjálbýlið, sveitirnar í Nýja-Sjálandi, sem eru að vísu fjölmennar hlutfallslega í því landi og skipta miklu máli af því að landbúnaður er höfuðatvinnugrein Nýsjálendinga. En það finnast fáir stuðningsmenn og aðdáendur þess fyrir utan kannski höfuðborgina og stærstu borgina Oakland, að nýsjálenski síminn var einkavæddur og síðan seldur Ameríkönum. Tvö amerísk fyrirtæki hirða núna allan arðinn af þessu fyrirtæki í fjarskiptum með lykilstöðu á nýsjálenska markaðnum og gera meira en það. Hluti af umsvifum nýsjálenska símafyrirtækisins hefur verið flutt til Bandaríkjanna og hann er orðinn útibú frá bandarískri samsteypu.

Hvernig hafa gjaldskrármálin gengið fyrir sig eftir að síminn var einkavæddur í Nýja-Sjálandi? Jú, þannig að það hefur gengið á með kærumálum út af því að síminn í amerískri eigu með einokunaraðstöðu á landsbyggðinni er sakaður um að halda uppi gjaldskránni í dreifbýlinu til að greiða niður kostnaðinn af samkeppninni í höfuðborginni Wellington og í stærstu borg Nýja-Sjálands, Oakland. Þetta er svona. Menn þurfa ekki alla leið suður á hinn enda hnattarins. Menn geta farið til Danmerkur og það mætti ýmislegt segja af þeirri reynslu sem Danir hafa gengið í gegnum og eru þó aðstæður þar auðvitað allar aðrar til samkeppni í fjarskiptamálum heldur en hér.

Ég held að sé mjög mikilvægt að menn átti sig á því hvers eðlis fyrirtækið Síminn er. Síminn býr við það sem kallað er oft náttúrlega einokun. Það er fólgið í aðstæðunum sem fyrirtækið er í. Af hverju er það? Það er af því Síminn á grunnnet fjarskipta í landinu. Hvað er grunnnetið? Það er ljósleiðarakerfið. Það eru örbylgjusamböndin. Það eru símstöðvarnar. Það eru tengivirkin. Það er koparinn inn í húsin í landinu. Það eru símþræðirnir inn í hvert einasta hús í landinu. Það eru jarðstöðvarnar, bæði aðalstöðvar og varastöðvar og það er eignarhlutur Íslendinga í sæstrengjum. Allt þetta er í Símanum. Það er ekki vitað annað en að ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn líka ætli að láta hafa sig út í það að selja þetta allt saman til einkaaðila. Í hvaða stöðu verður þá einkaaðilinn? Hann er kominn í algera lykilstöðu. Hann ræður ekki bara í viðskiptalegu tilliti fjarskiptamálunum í landinu heldur ræður hann fjarskiptaörygginu. Eru menn algerlega sáttir við það, dús við það, að það sé bara sett í hendur einkaaðila að sjá algjörlega um það mál og að ríkið hafi ekkert um það að segja eftir einkavæðinguna hvernig t.d. fjarskiptaöryggið er tryggt, að það verði bara látið ráðast af markaðslegum forsendum og einkahagsmunum eigandans?

Nú er Síminn gríðarlega stöndugt fyrirtæki. Hann er metinn á kannski 30–40 milljarða kr. Hann hefur verið gerður upp með rúmlega tveggja milljarða kr. hagnaði undanfarin ár eftir skatta. Síminn hefur því skilað miklu í ríkissjóð. Hann hefur greitt 30% arð af liðlega 7 milljarða kr. hlutafé að nafnvirði sem gerði t.d. á síðasta ári 2.110 millj. kr. og af því fékk ríkið 99%. Auk þess hefur Síminn greitt um 500 millj. kr. í skatta. Það er nú dálaglegt búsílag. En þetta segir ekki alla söguna. Það segir kannski enn meiri sögu að Síminn skilaði frá rekstri í fyrra 7.400 millj. kr. tæpum. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir voru sem sagt 7.381 millj. kr. Veltufé frá rekstri var 6.800 millj. kr.

Sjá menn ekki hvers konar fjármunamyndun er þarna á ferðinni og hvað ríkið er að láta frá sér? Það þarf ekki að eiga fyrirtækið í mörg ár til þess að fjármunamyndunin í því sé sambærileg upphæð og menn eru að tala um sem mögulegt söluverð, kannski fimm ár. Hreinn hagnaður eins og hann hefur verið í fyrra og hittiðfyrra borgar fyrirtækið upp í topp á innan við 20 árum, kannski 15–17 árum. Þá ættum við Símann aftur bara með því að selja hann ekki. Í raun og veru væri ekkert því til fyrirstöðu að fara hér þá leið sem hefur verið farin í Noregi, að eigið fé fyrirtækisins hefur beinlínis verið lækkað með útgreiðslum til eigenda.

En ríkisstjórnin virðist ætla að fara þá ótrúlegu leið að selja fyrst og spyrja svo, gefa sér niðurstöðuna fyrir fram, að það verði einkavætt til að þjóna kreddunni og að þar verði farin hin fullkomna nýfrjálshyggjuleið, nýsjálenska leiðin. Menn eru hér greinilega kaþólskari en páfinn. Menn eru hægri sinnaðri en hægri stjórnin í Noregi eins og líka hefur komið fram í fleiri tilvikum. Framsóknarflokkurinn undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur reyndist hægri sinnaðri í orkumálum en repúblikanarnir í Kaliforníu. (Gripið fram í: Nú?) Hann fór hægri sinnaðri leið í markaðsvæðingu raforkumarkaðarins hér heldur en repúblikanar í Kaliforníu mæla nú með að gert sé.

Svo er verið að tala um það — og það væri fróðlegt að fá útlistanir á því — að nota einhvern hluta söluandvirðisins í ráðstafanir til að stoppa í götin í kerfinu, þétta GSM-netið, bæta úr gagnaflutningaaðstæðum minni byggðarlaga o.s.frv. Er þetta ekki öfug röð á hlutunum, hv. þm. Birkir Jón Jónsson? Væri nú ekki nær að gera þetta fyrst í öllu falli? Það er það sem við erum hér að leggja til.

Auðvitað bíður margt fleira úrlausnar í fjarskiptamálum okkar en þetta tvennt sem ég hér nefndi þó það sé mjög mikilvægt. Það er dálítið dapurlegt að Síminn skuli vera svo tregur að það eru einkafyrirtæki sem eru að bjóða minni byggðarlögunum upp á úrlausn. Auðvitað er allt gott um það að segja. En manni finnst að Síminn ætti nú að geta gert þetta sjálfur með öllu sínu bolmagni. Hvernig stendur á því að fyrirtæki jafnvel sunnan frá Ítalíu eru að bjóða upp á þráðlausar lausnir í gagnaflutningamálum í þorpum í landinu sem Síminn okkar virðist ekki hafa áhuga á? (BJJ: Á ríkið að keppa við þau?) Ja, ríkið á a.m.k. að sjá til þess að hafa þetta í lagi ef ekki eru aðrir um það. Svo er líka spurning: Er ekki Síminn í betri aðstæðum til að gera þetta á hagstæðan hátt ef hann vill það? Auðvitað er samkeppnin orðin staðreynd í þessum efnum. En við vitum að það verður ekki hún sem leysir úr vanda þeirra sem lakasta hafa stöðuna í þessum efnum. Orka stóru fyrirtækjanna fer auðvitað í slagsmálin hér á höfuðborgarsvæðinu. Nú er búið að sameina einkareknu símafyrirtækin nánast öll í eitt. Hvaða mynd blasir þá við okkur ef við einkavæðum síðan Símann? Er það ekki svolítið kunnugleg mynd af tveimur markaðsráðandi risum sem skipta þá markaðnum á milli sín? Þá er búin til alger fákeppnisstaða. Einkavædd einokun verður þá búin til á þessu sviði.

Það er auðvitað þannig að um langan aldur mun Síminn vegna lykilstöðu sinnar, vegna sinnar miðlægu stöðu í kerfinu, verða ráðandi risi í þessum efnum. Hvað sem líður samkeppni, ágæt sem hún getur verið á afmörkuðum sviðum, þá er þetta auðvitað þannig.

Ég minni líka á það sem ég hef áður getið hér um í sambandi við öryggi fjarskiptakerfisins og þær aðstæður sem fram undan eru í þessum efnum. Fyrir utan fjarskipta- og gagnaflutningamöguleikana almennt og nauðsyn þess að þétta farsímakerfið þá nefni ég hlut sem fram undan er eins og uppbyggingu þriðju kynslóðar farsíma. Hver á að ráðast í það verkefni sérstaklega á landsbyggðinni? Halda menn að einhverjir einkaaðilar svona bara hristi það fram úr erminni að ráðast í þær fjárfestingar sem verða nauðsynlegar á komandi árum til að byggja upp fullnægjandi kerfi fyrir þriðju kynslóð farsíma sem væntanlega kemur hér eins og annars staðar þó það hafi látið á sér standa? Ég held að það verði nú handleggur. Hver á að sjá um að leggja síðasta kílómetrann? Hver á að sjá um fjarskiptin í sveitunum ef menn einkavæða Landssímann?

Í fjórða lagi nefni ég svo það að hlutirnir standa ekki kyrrir í þessum efnum, það eru m.a. þau vandamál sem lúta að öllum hugmyndum um að taka einhverja aura út úr sölunni til að stoppa í núverandi kerfi. Ekki er víst að það dugi nema í þrjú ár. Þá eru komnar kröfur, ný og afkastameiri tækni. Þá byrja menn að dragast aftur úr á nýjan leik nema einhvern veginn sé séð fyrir því að fleiri sjónarmið en arðsemiskrafan ein ráði því þetta er spurning um undirstöðuþjónustu í nútímasamfélagi. Þetta er spurning um tilvistargrundvöll í upplýsingasamfélagi nútímans og framtíðarinnar, ekkert minna. Þetta er jafnóaðskiljanlegur og nauðsynlegur hluti af tilverunni og aðgangur að menntun, heilsugæslu og góðum samgöngum. Fjarskiptin liggja þannig í eðli sínu. Með hverju standa og falla hugmyndir manna um nýtingu upplýsingatækninnar t.d. til að efla lýðræðið? Jú, með því að aðgangur allra landsmanna á jafnræðisgrundvelli sé tryggður.

Það er hreint ábyrgðarleysi og það er ömurlegt að sjá Framsóknarflokkinn sem þykist enn þá hafa einhverjar taugar til landsbyggðarinnar og búsetu manna þar, láta hafa sig í svona leiðangur, nema honum sé ekki eins leitt og hann lætur. Kannski er þetta einmitt sönnum þess hvernig Framsóknarflokkurinn er flúinn á mölina, að hann ætlar að hafa forgöngu um það undir forustu forsætisráðherra síns, Halldórs Ásgrímssonar, að einkavæða Landssímann.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og efnahags- og viðskiptanefndar í ljósi þess að fjármálaráðherra fer nú með eignarhaldið í Símanum.