131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[14:47]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Síminn er að mörgu leyti mjög gott fyrirtæki og byggir á gömlum merg frá því að hann var opinbert fyrirtæki, starfaði á grundvelli einkaleyfa og skilgreindi sig sem opinbert almannaþjónustufyrirtæki.

Póstur og sími var í það heila tekið mjög vel rekin og framsækin stofnun, eins og ég þekkti hana á sinni tíð. Hún skilaði okkur Íslendingum þeim árangri m.a. að um 1990 voru símgjöld í landinu einhver þau lægstu í Evrópu. Við vorum í fremstu röð hvað varðaði tækniþróun í fjarskiptakerfinu. Það má t.d. sjá á því að landið var ljósleiðaravætt. Hér náði stafrænn sími snemma til allra landsmanna, sem er ekki lélegur árangur í okkar strjálbýla landi. Hér var NMT-kerfið byggt upp, með því fyrsta sem þekktist, og hér var byggt upp farsímakerfi.

Því miður hefur mér hins vegar fundist að Síminn drægi dám af andrúmsloftinu og viðhorfum stjórnenda sinna og kannski eigenda, í þeim skilningi að ríkisvaldið sem hefur farið með það mál undanfarið er farið að horfa öðruvísi á þessa hluti en áður. Ég hef gagnrýnt það og hefði fundist að Síminn gæti sýnt meiri metnað í að leysa t.d. úr vandamálum minni þéttbýlisstaða á landsbyggðinni. Það er allt gott um framtak og hugvit einkaaðila að segja sem hafa þar fyllt í eyðurnar en aðstæður þeirra eru á margan hátt mismunandi til að leysa það af hólmi.

Úr því að kerfið er þó jafngott og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson dró hér upp, hvers vegna þá að breyta? Hvers vegna að breyta því sem hefur gefist vel? Færeyingar eru með opinbert símafyrirtæki eins og við. Þeir eru á undan okkur að flestu leyti í uppbyggingu fjarskipta. Þeir eru t.d. í þann veginn að ljúka við að gera allar Færeyjar að stafrænu sjónvarpsútsendingarsvæði. Þar erum við talsvert á eftir. Það hafa þeir gert í gegnum sitt opinbera símafyrirtæki. Ég tel að þetta hafi gefist vel. Við eigum ekki að kasta fyrir róða því sem gefist hefur vel.

Samkeppnin er góðra gjalda verð. Hún er komin til sögunnar á afmörkuðum svæðum (Forseti hringir.) og menn horfa þar fyrst og fremst á stærstu markaðssvæðin. Gott og blessað, en einhver þarf að tryggja aðganginn.