131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[15:05]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé óraunhæf hugmynd sem hv. þm. mælir fyrir. Ég tel að farið hafi verið rækilega í gegnum það á undanförnum árum. Það er ekki raunhæft að ætla að aðskilja hið svokallaða grunnnet frá öðrum rekstri fyrirtækisins. Niðurstaðan í þessu máli, í sambandi við einkavæðingarferlið, er að gera það ekki.

Ég tel mun skynsamlegra að fara þá leið sem ég drap á og liggur eiginlega í hlutarins eðli, að selja fyrirtækið með grunnnetinu og með tilteknum kvöðum og skyldum, bæði svokallaðri alþjónustukvöð á tilteknum sviðum en jafnframt hugsanlega öðrum skyldum eftir því sem nánar verður ákveðið í ferlinu. Það mun væntanlega nánar skilgreint af samgönguráðherra.