131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[15:10]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðasta atriðið þá er það almennt þannig að menn reyna að meta væntanlega verðmætaaukningu þegar fyrirtæki eru verðmetin til sölu. Það kemur vonandi fram í söluverðmætinu hvað þar er um að tefla.

Varðandi aðferðafræðina þá hefur ríkisstjórnin auðvitað ekki framselt ákvörðunarvald sitt til ráðgjafa. En hún kaupir sér ráðgjöf til að geta valið úr nokkrum góðum kostum, vænti ég, til að hafa úr að spila öllum skynsamlegum möguleikum í dæminu. Auðvitað væri einn möguleikinn sá að selja þetta í gegnum Kauphöllina en það er ekki víst að það takist að samræma það öðrum markmiðum, t.d. því að fá hámarksverð fyrir, miðað við það hvað sanngjarnt mun teljast.

Varðandi kaup eða viðskipti Símans, sem hv. þm. nefndi, við Skjá 1 þá hefur það komið fram af minni hálfu að ég geri ekki athugasemd við þau viðskipti. Stjórnendur Símans verða að hafa svigrúm til þess að meta sjálfir hvað þeir telja skynsamlegt að gera í slíkum efnum varðandi fjárfestingar.

Varðandi gullbréfið þá er það vafalaust eitt þeirra atriða sem ráðgjafinn mundi fjalla um, hvort slíkt kæmi til greina. Ég vil ekki útiloka það fyrir fram. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef ekki leitt mjög hugann að þeirri leið en ég þakka þingmanninum fyrir ábendinguna.