131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[15:12]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst það út af fyrir sig þakkarvert að hæstv. fjármálaráðherra hafni því ekki fyrir fram. Ég þráspurði hæstv. samgönguráðherra um þetta á sínum tíma. Ég réð af svörum hans að hæstv. samgönguráðherra hefði ekki verið því andvígur og jafnvel því fylgjandi en hefði ekki fengið því ráðið, að einhvers staðar annars staðar í kerfinu hefði það strandað, væntanlega í einkavæðingarnefndinni eða ráðherranefnd um einkavæðingu, að ganga þannig frá málum.

Ég minni t.d. á að ef það er ætlun manna að hafa það galopið að fyrirtækið geti farið að fullu og öllu í erlenda eigu þá væri spurningin: Vilja menn halda eftir rétti til að sjá um að stjórn þess sé á hverjum tíma að lágmarki skipuð að meiri hluta íslenskum ríkisborgurum o.s.frv.?

Varðandi aðferðafræðina þá eru svör hæstv. fjármálaráðherra lýsandi fyrir framgöngu ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarferlinu allan tímann, þ.e. hringl. Það er skipt um aðferð nánast í hvert einasta sinn. Þar er engin föst stefna sem liggur fyrir fyrir fram mótuð, öfugt við það sem menn hafa gert víðast hvar annars staðar. Það mætti margt um einkavæðingaræfingar manna segja vítt og breitt um Evrópu en yfirleitt hefur verið mótuð stefna um aðferðafræðina og henni framfylgt. Norðmenn gera þetta, norska þingið hefur komið að því og lagt niður línurnar um hvernig eignarhaldi ríkisins verði háttað í stærstu opinberu fyrirtækjunum til nokkurra ára í senn, t.d. að eignarhlut verði haldið fyrir ofan viss mörk í olíufyrirtækjum, fjarskiptafyrirtækjum o.s.frv.

En hér er auglýst eftir ráðgjafa utan úr bæ til að koma með tillögur. Síðan lítur ríkisstjórnin svo á að hún hafi algerlega frjálsar hendur í hvert sinn til að velja bara þá aðferð sem dettur ofan í kollinn á mönnum hverju sinni. Hvers vegna er þetta? Jú, vegna þess að þá geta menn komið fyrir hvers konar pólitískum hrossakaupum, helmingaskiptum og öðru slíku (Forseti hringir.) sem hefur einkennt þetta ferli allan tímann.