131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[15:39]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga sem flutt er af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Jóni Bjarnasyni. Lagt er til að sölu Símans verði frestað, a.m.k. til ársloka 2008. Fyrirtækinu skal á þeim tíma falið að gera sérstakt átak til að bæta fjarskipta- og gagnaflutningakerfi landsins með það að markmiði að allir landsmenn, án tillits til búsetu, eigi kost á nýjustu og fullkomnustu tækni á þessu sviði. Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Heimilt er að lækka eða fella niður arðgreiðslur í ríkissjóð á móti þeim fjárfestingum fyrirtækisins í þessu skyni sem síst eru arðbærar, samkvæmt nánari reglum er fjármálaráðherra setur.“

Þarna vitnaði ég í lagagreinina sem við viljum fá lögfesta.

Um miðjan september fóru fram stólaskipti í ríkisstjórninni. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra skiptu á stólum og nýr umhverfisráðherra settist í ríkisstjórnarstól. En það gerðist eitt í viðbót og engu líkara en þar væri á ferðinni heilt ráðuneyti, það var einkavæðingarnefnd. Formennskan í einkavæðingarnefnd fór yfir til Framsóknarflokksins í anda góðrar helmingaskiptareglu. Einkavæðingarnefnd er nefnilega mjög áhrifamikil, hún er valdanefnd. Það er á þeim vettvangi sem helmingaskiptin fara fram, þar sem ríkisstjórnin ráðstafar eignum þjóðarinnar eins og salan á bönkunum og fleiri dæmi sanna. Hún hefur reyndar gefið þeim sem starfað hafa í nefndinni talsvert í aðra hönd. Þeir hafa komið sér upp mjög sniðugu kerfi. Þeir eru á föstum nefndarlaunum en leita svo ráðgjafar úti í bæ. Og hvar skyldu þeir leita ráðgjafar? Þeir leita ráðgjafar hjá sjálfum sér úti í bæ. Á rándýrum ráðgjafatöxtum ráðleggja þeir sjálfum sér. Þetta hefur áður komið til umfjöllunar í þinginu þegar óskað var eftir upplýsingum um greiðslur til nefndarmanna í einkavæðingarnefnd.

En þetta er ekki stóra málið sem er til umfjöllunar núna heldur það viðfangsefni sem nefndinni hefur verið falið, að selja hlut ríkisins í Símanum og sama — ég vil ekki kalla það röksemd — viðlagið er við málflutning stjórnvalda um ágæti þessarar sölu og áður. Allir eru að gera hana. Þetta var viðkvæðið þegar Póstur og Sími var gerður að hlutafélagi um miðjan 10. áratuginn, vegna þess að allir voru að gera það. Við verðum að gera það líka að sjálfsögðu. Það stóð ekki til að selja Símann, það átti aldrei að selja hann. Þáverandi hæstv. samgönguráðherra lýsti því margoft yfir bæði í þessum sal og í viðtölum að það stæði ekki til. Nú er það hins vegar að gerast og aftur vegna þess að allir eru að gera það í löndunum í kringum okkur og nýfrjálsu þjóðirnar í Mið- og Austur-Evrópu eru að einkavæða alla opinbera starfsemi, sagði hæstv. fjármálaráðherra í umræðu fyrr í dag um söluna. Það er nú það.

Ég hef kynnst því svolítið á öðrum vettvangi, vettvangi verkalýðshreyfingar. Þar hefur einkavæðingin í nýfrjálsu ríkjunum svokölluðu komið talsvert til umræðu og um þetta hafa staðið geysileg átök, m.a. um símann í Búlgaríu. Þar hafa Íslendingar fjárfest. Í Fréttablaðinu um miðjan júní birtist svohljóðandi frétt, með leyfi forseta:

„Hópur fjárfesta undir forustu Björgólfs Thors Björgólfssonar gekk í gær frá kaupum á 65 prósenta hlut í búlgarska landssímanum, BTC. Kaupverð hlutarins er 24 milljarðar króna. Með Björgólfi í fjárfestingarfélagi hans, Carrera, eru Straumur, Burðarás og Síminn, en leiðandi fjárfestir með Carrera er fjárfestingarfyrirtækið Advent International. Velta BTC var tæpir fimmtíu milljarðar króna og hagnaðurinn á ellefta milljarð. Tæplega 25 þúsund manns starfa hjá fyrirtækinu. Fastlínukerfi BTC nær til allra heimila í Búlgaríu.“

Síðan segir enn fremur í þessari frétt, með leyfi forseta:

„Pólitísk átök hafa verið um þætti sölunnar í Búlgaríu, en með afhendingu fjarskiptaleyfis á rekstur GSM-kerfis var síðustu hindrun kaupanna rutt úr vegi. Björgólfur þekkir vel til í Búlgaríu og segir hindranir í stjórnmálalífinu hafa bæði komið sér á óvart og ekki. „Það er ekki fyrir bisnessmenn að skilja pólitíkusa né fyrir pólitíkusa að skilja bisnessmenn. Það fer ekkert saman, en allt er gott sem endar vel og þetta eru mikilvæg viðskipti fyrir búlgörsku þjóðina“.“

Ja, það eru nú áhöld um það og miklar deilur um það.

Ég fór að rifja þetta mál upp í eigin huga vegna þess að fyrir ekki svo ýkjalöngu síðan, í lok síðasta árs, í nóvember árið 2003, stóðu miklar deilur í Búlgaríu um sölu á búlgarska símanum. Þar var haldin ráðstefna fjárfesta, bandarískra og þessara íslensku fjárfesta líka, og þar kom fram að sendiherra Bandaríkjanna hafði haft í hótunum við búlgörsku ríkisstjórnina.

Í nóvember sagði Björgólfur Thor í blaðaviðtali einnig í Fréttablaðinu eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Bandaríski sendiherrann hefur lýst því yfir að verði tilboði alþjóðlegu fjárfestanna ekki tekið stefni það viðskiptasamböndum Bandaríkjamanna og Búlgaríu í hættu.“

Þetta eru orðsendingarnar sem lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum eru sendar af auðmönnum sem tala eins og þeir sem hafa valdið og vissulega hafa þeir valdið og nú eru þeir búnir að ná sínu fram.

Þetta rifja ég nú einvörðungu upp vegna ummæla hæstv. fjármálaráðherra um að þjóðirnar í Mið-Evrópu og í Austur-Evrópu séu að einkavæða símakerfin sín. Um þetta standa geysilegar deilur, ekki aðeins í Búlgaríu heldur einnig annars staðar.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að ríkið ætti ekki að annast símarekstur eða yfirleitt rekstur sem aðrir vildu hafa með höndum. Ja, hvernig skyldi standa á því að aðrir vilji hafa þennan rekstur með höndum? Gæti það verið vegna þess að hann gefur talsvert í aðra hönd, gæti það verið þess vegna? Ég var áðan að vitna í hagnaðartölur frá Búlgaríu. Þær eru ekki síður miklar hér á landi.

Það hefur komið fram að rekstrarhagnaður Símans og dótturfyrirtækja var á síðasta ári 7.381 milljón fyrir afskriftir. Arðsemi eigin fjár var á árinu 2003 14,8% en var 15,2% á árinu áður. Þetta ætla menn að fara að gefa frá sér, selja frá þjóðinni, og leyfa sér síðan að tala um það sem hafa megi í vaxtatekjur. Hvers konar hagfræði er þetta? Ég bara spyr.

Ég minnist þess að þegar núverandi forstjóri Símans tók við starfi sínu var viðtal við hann í sjónvarpinu og hann var spurður: Hverju vilt þú ná fram í starfi þínu sem forstjóri þessa mikla fyrirtækis? Hann svaraði að bragði: „Ég vil hagkvæman rekstur, sterkt fyrirtæki sem skilar eiganda sínum góðum arði.“ Þetta var skilgreining hans á þeim markmiðum sem hann vildi ná fram.

Þá kom upp í hugann annað viðtal við póst- og símamálastjóra frá fyrri tíð, Ólaf Tómasson, vegna þess að hann hafði einnig verið spurður þessarar spurningar. Hvert skyldi svar hans hafa verið? „Ég vil reka þetta öfluga símafyrirtæki þannig að það gagnist öllum landsmönnum vel, að það veiti góða þjónustu. Til þess var það smíðað og ég vil ná fram þeim markmiðum.“

Aftur rifjast þetta upp í öðru útvarpsviðtali núna fyrir fáeinum dögum, gott ef það var ekki forstjórinn, ég skal ekki fullyrða um það, en einhver fulltrúi eigenda var spurður út í söluna og hann sagði: „Það sem þetta snýst allt saman um er að sanngjarnt verð fáist fyrir Símann.“

En er það virkilega svo, snýst þetta einvörðungu um sanngjarnt verð? Snýst þetta ekki um skynsemi og snýst þetta ekki um það hvort salan gagnist íslensku þjóðinni? Er það ekki stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir?

Ég verð að segja að hvernig sem á málin er litið þá er þetta óráð. Við erum selja frá okkur fyrirtæki sem gefur mikið í aðra hönd, það er ekki svo að það sé greitt með því, síður en svo. Það veitir mikla fjármuni inn í ríkissjóð. Hvaða afleiðingar hefur það? Ja, t.d. þær að við þurfum ekki að hafa skattheimtu eins mikla fyrir vikið. Það er ein afleiðingin.

Við skulum ekki gleyma því að jafnvel þau rök að salan skili miklu núna í skamman tíma, einhverjir tugir milljarða kæmu í ríkissjóð, þá hefur það komið fram eða var vakin athygli á því í máli 1. flutningsmanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að sé einvörðungu litið til arðsins af fyrirtækinu mundi það borga sig upp á 15–17 árum.

Ég spyr því um þessa hagfræði. Ég hef nefnilega trú á því að pendúllinn sé að byrja að sveiflast til baka.

Í Bretlandi fer fram mikil umræða núna um svokallaða einkaframkvæmd. Hverjir skyldu standa þar fremst í flokki í að gagnrýna Verkamannaflokkinn, sem hefur ekki verið síður duglegur en íhaldið við að einkavæða? Það eru ýmsir þingmenn íhaldsflokksins, það eru bisnessmennirnir í íhaldsflokknum, þessir ábyrgu, ekki þeir sem vilja setjast við mjaltir og hafa arð út úr fyrirtækjum sjálfum, ekki þessir eigingjörnu, heldur hinir sem hugsa um almannahag. Þeir spyrja: Eru þetta góð býti fyrir hið opinbera?

Ég ef stundum rifjað það upp að einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur harðlega varað við einkaframkvæmd. Hver skyldi það vera? Það er hv. þm. Gunnar Birgisson. Hvernig stendur á því? Hann er gamall bisnessmaður, hann segir: „Ég læt ekki plata mig, ég læt einfaldlega ekki plata mig.“ Hann er forseti bæjarstjórnar í Kópavogi. Á þeim bænum eru menn ekki ginnkeyptir fyrir einkaframkvæmdum vegna þess að það er ekki góður bisness fyrir bæinn.

Það sem mér hefur alltaf fundist átakanlegt þegar ég hef horft eftir ráðherrabekkjunum þegar þeir eru fullskipaðir þessum hagsmunagæslumönnum íslensku þjóðarinnar sem þeir eiga að vera, er hversu illa þeim gengur að standa í fæturna, hversu slæmir bisnessmenn þeir eru fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.

Síðan er náttúrlega eitt að fjalla um söluferlið, ef af þessu verður. Þá væri náttúrlega skynsamlegast að gera það á markaði, ekki með milligöngu helmingaskiptanefndarinnar, makknefndarinnar, sukknefndarinnar, heldur yrði það gert á markaði. Það var sterk krafa um það á sínum tíma í Sjálfstæðisflokknum. Það var Framsókn sem ætlaði sér að ná í nokkur feit kjötstykki þar og það gekk eftir, íhaldið makkaði með. Þar varð einkavæðingarnefndin tækið sem menn notuðu í því skyni. Og auðvitað er eina rétta leiðin, ef á annað borð er farið út í þessa vitleysu, að gera þetta á markaði.

En það á alls ekki að selja Símann, við eigum að halda honum í eign þjóðarinnar og við eigum að byggja upp áfram það kerfi sem hér hefur verið vel byggt upp. Ég vil rifja það upp í lokin svona í ljósi þeirra miklu yfirlýsinga sem hafa komið sérstaklega frá yngri kynslóðinni í stjórnendaliði Símans í seinni tíð, að þá fyrst hafi einhverjar framfarir orðið þegar Síminn var gerður að hlutafélagi og hin nýja hugsun hóf innreið sína í fyrirtækið, þá vil ég minna á að þegar Síminn var gerður að hlutafélagi var staðan sú að hvergi í heiminum voru innanlandssímtöl, þar með talið GSM, ódýrari en á Íslandi.

Ég tek undir það, og ætla að gera það að lokaorðum mínum hér, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, sem er 1. flutningsmaður þessa máls sem hann flytur ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að menn verði að færa rök fyrir máli sínu. Ef maður ætlar að gera við eitthvað þarf maður að vita hvað er bilað áður en maður byrjar að gera við. Og hvað er að? Hvað er það sem á að gera við? Væri hægt að fá upplýsingar um það aðrar en þær mótsagnir og mótsagnakenndu yfirlýsingar sem við höfum heyrt?

Yfirleitt hefur það verið svo þegar ríkið hefur haft einhverja starfsemi á sínum höndum að þá er sagt að nú þurfi að stuðla að samkeppni. Svo þegar búið er að einkavæða, hvað er sagt þá? Þá á náttúrlega að láta þetta renna saman aftur vegna stærðarhagkvæmni, er það ekki? Er það ekki svoleiðis sem þetta gengur fyrir sig? Fyrst eru rökin notuð til að ná þessu úr eign almennings og síðan byrjar náttúrlega samþjöppunin aftur. Þá koma ný rök til sögunnar: „Já, en við erum í samkeppni við erlendar þjóðir.“

Eigum við ekki bara að halda okkur við hin bestu búmannsfræði og spyrja: Hvað gagnast íslensku þjóðinni best? Menn gerðu gys að því áðan að þetta væru gamaldags viðhorf. Já, já, þetta eru gömul og ný sannindi. Eigum við ekki að halda okkur svolítið við þau? Sannindin.