131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[10:38]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu um málefni sveitarfélaganna, fjárhagsstöðu þeirra og fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Síðustu missiri hefur farið fram einhliða og að vissu leyti villandi umræða um þessi mál. Ég tel mikilvægt að ákveðnum staðreyndum og upplýsingum sé komið á framfæri og þeim haldið til haga svo að upplýst umræða um málefni sveitarfélaganna megi halda áfram. Því fer fjarri að fjármál sveitarfélaganna séu öll í kalda koli.

Þrátt fyrir að 23 sveitarfélög hafi fengið bréf frá eftirlitsnefnd í kjölfar árlegrar athugunar hennar á reikningsskilum þeirra þá liggja afar mismunandi ástæður þar að baki. Það er mikill misskilningur að öll þessi sveitarfélög standi höllum fæti fjárhagslega. Hátt í helmingur er til að mynda með um eða yfir 50% eiginfjárhlutfall og einungis fimm þeirra búa við að meðaltekjur íbúa þeirra séu undir landsmeðaltali.

Þó er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd, hæstv. forseti, að nokkur sveitarfélög glíma við rekstrarvanda og erfiða fjárhagsstöðu. Eftirlitsnefnd hefur fjármál þessara sveitarfélaga í sérstakri meðferð og vinnur með stjórnendum að því að styrkja rekstrargrundvöll þeirra.

Á því rúma ári sem liðið er frá því að ég tók við embætti félagsmálaráðherra hefur markvisst verið unnið að því að efla samskiptin við sveitarfélögin. Ég legg áherslu á að því starfi verði haldið áfram.

Síðastliðið haust hófst vinna við sérstakt átak til eflingar sveitarstjórnarstigsins, sem er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Markmið þess er að efla sveitarfélögin með aukinni valddreifingu sem verður fyrst og fremst gert með flutningi verkefna og fjármuna frá ríki til sveitarfélaga.

Síðastliðið vor kynnti verkefnisstjórn átaksins tillögur sínar til breytinga á verkaskiptingu hins opinbera. Í þeim tillögum er lögð áhersla á að auka hlut sveitarfélaganna í nærþjónustu við íbúana, einkum á sviði velferðarmála. Verði af flutningi þeirra verkefna sem eru til sérstakrar skoðunar, þ.e. málefna fatlaðra, málefna aldraðra og heilbrigðisþjónustu, mun hlutur sveitarfélaga í samneyslunni stóraukast eða úr rúmlega 30% í um 40%. Fjárhagsleg umsvif sveitarfélaganna munu aukast um ríflega 30 milljarða kr. á ári.

Sérstök tekjustofnanefnd var skipuð í lok síðasta árs og er rétt að fram komi að starf hennar er að sjálfsögðu með öllu ótengt hugmyndum um skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur boðað. Með viljayfirlýsingu sem undirrituð var þann 17. september síðastliðinn er verksvið nefndarinnar betur skilgreint en gert var í upphafi og þar með er ekkert því til fyrirstöðu að starf hennar haldi áfram af fullum krafti.

Í yfirlýsingunni segir m.a. að tekjustofnanefndin skuli skoða sérstaklega þau sveitarfélög og svæði sem standa höllum fæti fjárhagslega, meta ástæður fyrir þeim vanda og gera tillögur sem leitt geti til úrbóta. Í þessu felst viðurkenning á því, hæstv. forseti, að sveitarfélögin í landinu standa misjafnlega að vígi fjárhagslega. Að sumu leyti virðist bág fjárhagsstaða sveitarfélaganna vera byggðavandi. Skatttekjur þeirra dragast saman við brottflutning fólks en kröfur íbúa um þjónustu af hálfu sveitarfélagsins minnka ekki að sama skapi. Tekjustofnanefnd er ætlað að leggja fram tillögur til að bregðast við þessum vanda.

Hins vegar er ekki hægt að halda því fram, hæstv. forseti, að öll sveitarfélög þurfi á auknum tekjum að halda. Þetta sjáum við m.a. á suðvesturhorninu þar sem dæmi eru um sveitarfélög sem ekki nýta tekjustofna sína til fulls, hvorki útsvar né fasteignaskatt. Einnig má finna dæmi um sveitarfélög þar sem rangar og kostnaðarsamar ákvarðanir hafa skaðað fjárhagsstöðuna. Sveitarfélögin verða því líka að líta í eigin barm.

Í því sambandi má rifja upp að á grundvelli tillagna tekjustofnanefndar árið 2000 var útsvarsheimild sveitarstjórna hækkuð um nærri heilt prósentustig. Það gaf sveitarfélögunum aukna tekjumöguleika upp á tæpa 5 milljarða kr. á síðasta ári. Þetta aukna svigrúm hafa hins vegar ekki nærri allar sveitarstjórnir nýtt sér. Það undirstrikar að vandamálið er ekki eingöngu það að sveitarfélögin hafi ekki næga tekjustofna heldur eru tekjumöguleikar þeirra ólíkir.

Ég geri ráð fyrir að tekjustofnanefnd skoði ekki einungis hvort sveitarfélögin þurfi nýja eða öflugri tekjustofna heldur meti hún einnig hvort þörf sé á að auka jöfnun meðal sveitarfélaganna.

Hæstv. forseti. Í viljayfirlýsingunni eru tryggðir fjármunir í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að aðstoða sveitarfélög við sameiningu í samræmi við reglur sjóðsins. Er þar um að ræða allt að 2,4 milljarða kr. á næstu fimm árum.

Ég tel líka rétt að rifja upp að á árunum 1991–2001 greiddi ríkissjóður samtals 2,1 milljarð til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga umfram lögbundnar skyldur. Á síðasta ári lagði ríkissjóður rúmlega 400 millj. kr. í jöfnunarsjóð í sama tilgangi.

Það er alls ekki rétt að tala eingöngu á neikvæðum nótum um samskipti ríkis og sveitarfélaga, eins og hv. málshefjandi hefur gert í ræðustól Alþingis. Margt hefur áunnist á liðnum árum og með auknu hlutverki sveitarfélaga sem veitenda opinberrar þjónustu og eflingu þeirra með sameiningu eru bjartir tímar fram undan fyrir sveitarstjórnarstigið.