131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[10:55]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að taka þetta mál upp. Það er mikilvægt að við ræðum það hér og ræðum þetta á réttum forsendum. Kannski kristallaðist veruleikinn í þessu máli best í ræðum hæstvirtra ráðherra sem hvöttu þau sveitarfélög sem ekki hafa farið með sínar heimildir í botn að hækka útsvarið hjá sér á sama tíma og ríkið er að boða skattalækkanir. Kannski kristallast raunveruleg staða sveitarfélaganna best í þessu, að á sama tíma og ríkið er að boða skattalækkanir þá leggi það til og hvetji sveitarfélögin til skattahækkana, þau fáu sveitarfélög sem hugsanlega geta staðið undir þeim kröfum sem á þeim hvíla í dag, að þau nýti tekjustofna sína í botn. Það er afar eftirtektarvert hvernig hæstv. ráðherrar nálgast þessa umræðu.

Veruleikinn er einfaldlega sá að það er Alþingi sem setur sveitarfélögunum rammann, setur þeim reglurnar, skammtar þeim fjármunina þannig að eðlilegt er að þessi umræða fari fram. Kannski er afar sérstakt að nú þegar kennaraverkfallið er skollið á skuli þessi umræða um hver staða sveitarfélaganna er fyrst vakna af einhverri alvöru. Veruleikinn er nefnilega sá að sennilega eru teljandi á fingrum annarrar handar þau sveitarfélög sem geta mætt kröfum kennara. Önnur þurfa einfaldlega að mæta þeim með skuldsetningu alfarið. Og það er athyglisvert, og sveitarfélögin hljóta að þurfa að horfa í eigin barm, að forusta sveitarfélaganna hefur ekki verið að taka þessi mál upp af neinni alvöru. Svo segir samkomulagið eða yfirlýsingin, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti yfir að væri ekkert annað en falleg orð, nákvæmlega ekki neitt. Hún lýsir nákvæmlega engu og þetta er niðurstaða þriggja ára viðræðna, almenn yfirlýsing um það að menn (Forseti hringir.) hyggist vinna betur í komandi framtíð, virðulegi forseti.