131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[11:00]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það er af mörgu að taka varðandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga í landinu. Þau hafa verið rekin með halla, um 8 milljarða kr. halla á síðustu tveimur árum. Talsvert hefur verið rætt um tekjusamdrátt sveitarfélaganna, m.a. vegna fjölgunar eignarhaldsfélaga og síðast en ekki síst vegna fækkunar íbúa. Í kjölfar kennaradeilunnar er enn rætt um fjárhagsvanda sveitarfélaga. Búsetuflutningarnir eru mjög dýrir beggja vegna. Þar sem íbúum fækkar eru færri til að standa undir rekstri og greiðslum á skuldum. Á hinn bóginn þarf að byggja upp grunnþjónustu á þeim stöðum sem flutt er til.

Minni sveitarfélög þurfa að auki að kljást við að greiða fyrir að halda í atvinnuna. Dæmi eru um að lítið sveitarfélag hafi þurft að greiða 1 milljarð kr. fyrir að halda í fyrirtæki sitt. Það mundi heyrast hljóð úr horni í Reykjavík ef Reykvíkingar þyrftu að punga út 100 milljörðum kr. fyrir að halda í fyrirtæki sín. Þetta er fjárhagsvandi sem verður að horfast í augu við.

Ég vara við því sem fram kom hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni sem einhver allsherjarlausn varðandi fjárhagsvanda sveitarfélaga, þ.e. svokölluð sameining sveitarfélaga. Það er engin lausn. Ég bý sjálfur í sveitarfélagi sem hefur verið sameinað. Í kjördæmi mínu er sveitarfélagið Vesturbyggð. En þar með hefur ekki fengist nein allsherjarlausn. Menn verða að taka á raunverulegum vanda sveitarfélaganna. Tekjurnar og útgjöldin skipta máli. Að tala um sameiningarpilluna sem lausn vandans er til að forðast að tala um raunverulegan vanda sveitarfélaganna.