131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[11:04]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að svara hv. þm. Jóni Bjarnasyni varðandi það að ekki hafi verið farið eftir samkomulagi sem var gert á sínum tíma á milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarmat á frumvörpum félagsmálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis.

Reyndin er sú að í félagsmálaráðuneytinu hafa mörg frumvörp verið send til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og stjórn sambandsins hefur fjallað um þau mál hverju sinni. Hér fer hv. þm. því með rangt mál.

Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga hafa mikið verið í umræðunni á síðustu missirum. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að vekja máls á því á Alþingi.

Mörg sveitarfélög glíma við mikinn fjárhagslegan vanda. Það er alvarlegt í ljósi fjölþættra verkefna sveitarfélaga sem snúa oftar en ekki að grunnþjónustu við íbúa sveitarfélaganna. Við getum jafnframt viðurkennt þá staðreynd að þegar fólk velur sér samastað þá lítur það m.a. til þeirrar þjónustu sem viðkomandi sveitarfélag veitir. Málið snýst því um að jafna samkeppnisstöðu sveitarfélaganna. Ég dreg enga dul á að ég tel að ríkisvaldið þurfi að koma að vanda þeirra sveitarfélaga sem hvað verst standa fjárhagslega og geta illa veitt íbúum sínum nauðsynlega grunnþjónustu.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem undirrituð var 17. september síðastliðinn þar sem aðilar samkomulagsins, hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. félagsmálaráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, eru m.a. sammála um að eitt af brýnum verkefnum sé að skoða sérstaklega sveitarfélög sem standa höllum fæti fjárhagslega.

Mörg sveitarfélög standa á hinn bóginn ágætlega fjárhagslega. Í því ljósi er rétt að benda á að einungis 67 af 104 sveitarfélögum í landinu nýttu til fulls einn af tekjustofnum sínum, útsvarið. Það svarar til 1.100 millj. kr. og ljóst er að þar munar um minna.

Af framansögðu er ljóst að sveitarfélögin í landinu eru misjafnlega sett. Það er því brýnt að jafna (Forseti hringir.) stöðu sveitarfélaga, m.a. með öflugri (Forseti hringir.) jöfnunarsjóði og bæta þannig stöðu þeirra sveitarfélaga (Forseti hringir.) sem höllum fæti standa í dag.