131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[11:09]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar að hér er gert mikið veður af litlu tilefni.

Eins og fram kemur í margnefndri viljayfirlýsingu frá 17. september eru ríki og sveitarfélög sammála um að fela tekjustofnanefnd að hefja vinnu við að meta stöðu þeirra sveitarfélaga og svæða sem standa illa fjárhagslega og gera tillögur til úrbóta. Í meginatriðum eru ríki og sveitarfélög einnig sammála um hvaða leiðir koma til greina í því sambandi. Bæði ríki og sveitarfélög eru einhuga um að hraða vinnu tekjustofnanefndar eins og frekast er kostur. Endanleg ákvörðun um verkefnaflutning er að sjálfsögðu háð þeirri forsendu að ríki og sveitarfélög komist að sameiginlegri niðurstöðu um tekjustofna sem báðir aðilar geti sætt sig við. Það er engan veginn tímabært nú í upphafi hausts að ræða frestun á sameiningarkosningum sem fram eiga að fara næsta vor.

Því hefur verið haldið fram í umræðunni, hæstv. forseti, að sveitarfélögin hafi tekið við ábyrgð á grunnskólunum árið 1996 án fullnægjandi tekjustofna. Þessi fullyrðing stenst ekki skoðun. Forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa ítrekað staðfest að rétt hafi verið gefið. Raunar var framlag ríkisins hækkað um 1 milljarð kr. frá því sem áætlað hafði verið. Það fólk sem þekkir til málaflokksins hefur tekið undir þessi orð.

Í umræðum um frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum á síðasta þingi tók hv. 7. þm. Norðaust., Einar Már Sigurðarson, undir þetta sjónarmið. Þar sagði hann, með leyfi forseta:

„Ég kynnti mér hins vegar eins og ég sagði áðan á árum áður málið nokkuð vel og niðurstaða mín þá var sú að þetta væri líklega einn besti samningur sem sveitarfélög hafa nokkurn tíma gert við ríkisvaldið, þ.e. þegar grunnskólinn var fluttur yfir.“

Úttekt óháðs endurskoðunarfyrirtækis árið 2000 var unnin í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga og staðfestir þetta enn betur.

Hæstv. forseti. Mikilvæg skref hafa verið stigin í fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga á undanförnum árum. Framtíðin er björt ef við höldum áfram að efla sveitarstjórnarstigið eins og lagt hefur verið upp með.