131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:52]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að meta ræðu mína efnismikla þótt hún hafi verið fullneikvæð að hans mati. Ég verð að hryggja hann með því að hann hefur þá misst af fyrri hluta ræðu minnar sem var jákvæður. Þar vakti ég sérstaka athygli á því og vonaðist til að þetta yrði niðurstaðan, að hagur ríkissjóðs batnaði vegna þess að tekjurnar væru miklu meiri en áætlað var. Ég benti hins vegar á að það vekti mann til umhugsunar um áætlanagerðina sem slíka.

Það verður hins vegar kannski svolítið neikvætt þegar í ljós kemur að þetta sé örlítið á skjön við fjárreiðulögin, sem sett voru 1997. Þau voru m.a. sett til að ná tökum á ríkisfjármálum og ég hef undanfarin ár þakkað sérstaklega fyrir og fagnað því að frumvarp til fjáraukalaga væri lagt fram nokkurn veginn samhliða fjárlögunum. Ég taldi hreinlega að ég væri búinn að óska svo oft til hamingju með þetta að óþarft væri að gera það einu sinni enn og það væri kominn tími til að skoða aðra hluti og reyna að bæta þá líka.

Hv. þm. verður að athuga að þótt einhvern tíma hafi ástandið verið afskaplega slæmt þá dugir það ekki til að réttlæta að hlutirnir geti ekki orðið betri í framtíðinni. Við hljótum að horfa fram á við í þeim efnum. Vissulega hefur margt verið bætt en við getum bætt ástandið enn frekar. Ég var að tala um að fjárveitingavaldið væri að hluta til komið frá Alþingi og þannig er það raunverulega í verki þótt formlega sé það hér. En ríkisstjórnin tekur ákvarðanir sínar í skjóli þess að hún hefur meiri hluta á Alþingi. Það er afskaplega hæpið að sá meiri hluti rísi upp gegn henni vegna „smærri upphæða“. Valdið er því í raun og veru komið annað, því miður. En formlega er það hér áfram og við getum rætt um það og farið yfir það. En ég er ansi hræddur um að við fáum því ekki breytt.

Ég verð í seinna andsvari mínu, vegna þess að tíminn er rokinn frá mér, að fjalla um þau atriði í frumvarpinu sem upp hafa komið fyrir árið 2004.