131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:48]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér hafa farið fram athyglisverðar umræður um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004 og hafa þingmenn víða komið við. Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd, fór yfir meginsjónarmið í okkar og álit á afgreiðslu frumvarpsins. Það er ekki þörf á að endurtaka það. Hann kaus reyndar að fara ekki mjög ítarlega yfir frumvarpið í ræðu sinni.

Ég velti því fyrir mér hvort hið almenna yfirlit í umræðunni í dag sé í raun nóg við 1. umr. Ég tel að í frumvarpinu sé margt forvitnilegt og ætla að líta á einstaka liði eins og háttvirtir tveir ræðumenn á undan mér hafa leyft sér að gera. Ég held að umræður í fjárlaganefndinni sjálfri skili sér sjaldnast nægilega vel til almennings og tel fulla þörf á að þau atriði sem maður hnýtur um í þessu fjáraukalagafrumvarpi eigi að líta dagsins ljós við 1. umr. Það er undir hælinn lagt hvort þau skila sér aftur við 3. umr. inn í þingsalina. Ég ætla því að leyfa mér að koma með athugasemdir við nokkur atriði sem ég hef hnotið um hér og þar í frumvarpinu. Það má vel vera að rödd mín hljómi sem samantekt úr fyrirspurnatíma Alþingis. En við því er í raun ekkert að gera því að við lestur frumvarpsins hrannast upp spurningar sem óhjákvæmilegt er að orða í þingræðum.

Það má kannski segja að hæstv. fjármálaráðherra sé nokkuð sáttur, rödd hans og tónninn í ræðu hans benti til þess að hann væri ekkert venju fremur pirraður yfir frumvarpinu, kannski vegna þess að tekjuaukningin er gríðarleg. Það kemur fram í upphafi þessa frumvarps, við endurskoðun ríkisfjármála okkar, að tekjuafgangurinn á ríkissjóði hefur aukist um 1,1 milljarð kr. og verður þar af leiðandi um 7,8 milljarðar kr.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur vitanlega ástæðu til þess að fagna því en engu að síður eru í frumvarpinu útgjaldaliðir sem verður að setja spurningarmerki við og jafnvel við hina auknu tekjuöflun. Meðal þess sem fram kemur í þessu fjáraukalagafrumvarpi er að bílainnflutningur á árinu hefur aukist og nemur um 15 þús. bifreiðum. En árinu 2003 voru fluttar inn 2.600 bifreiðir. Hvað segir þetta okkur um einkaneysluna og hvað segir þetta ... (Fjmrh.: Prentvilla.) Prentvilla, segir hæstv. fjármálaráðherra. (Fjmrh.: 12.600.) Að þær eigi að vera 12.600 árið 2003. (Fjmrh.: Ég held það.) Við skulum skoða, hæstv. fjármálaráðherra , hvað rétt er. En jafnvel þótt þeir hafi átt að vera 12.600 á síðasta ári þá er aukningin umtalsverð. Einkaneyslan eykst gífurlega. Hvað koma skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á næsta ári til með að gera? Bæta enn olíu á nákvæmlega þann eld. Ég tel að þar séu gífurleg hættumerki sem mér finnst ríkisstjórnin ekki sporna gegn heldur fer hún í þennan aukna tekjuafgang og deilir honum út tvist og bast, um holt og móa eins og þetta fjáraukalagafrumvarp gefur til kynna.

Mig langar til að byrja á að líta hér á kafla menntamálaráðuneytisins þar sem lagt er til að fjárheimildir verði auknar um rúmar 500 millj. kr. Hér hefur verið komið inn á framhaldsskólana og málefni þeirra. Ég þarf í raun engu við það að bæta öðru en því að þær upplýsingar sem lágu fyrir í fjárlagaumræðunni fyrir þetta ár eru allar að koma á daginn núna. Ríkisstjórnin hafði enga ástæðu til að viðurkenna ekki vandann þegar fjárlagaumræðan fór fram. Einu afleiðingarnar af gjörðum ríkisstjórnarinnar eru þær að stjórnendur skólanna hafa átt í gríðarlegum erfiðleikum við að stjórna stofnunum sínum allt þetta ár. Ríkisstjórnin neitaði að horfast í augu við vandann þegar eðlilegt var að hún gerði það og mér finnst óforsvaranlegt að ríkisstjórnin skuli meðvitað gera skólastjórnendum, framhaldsskólanemum og fjölskyldum þeirra svo erfitt fyrir sem raun ber vitni, bara fyrir þvergirðingsháttinn í fólki við að viðurkenna augljósan vanda. Menn vissu síðasta haust, þegar fjárlagaumræðan fór fram, að þeir þyrftu að kyngja þessu súra epli þótt síðar yrði. Ég bið um að hæstv. ráðherrar hætti öllum þvergirðingshætti gagnvart skólunum og viðurkenni vandann þegar þörf er á en ekki ári síðar, tveimur eða þremur. Mér finnst sem að viðhorf ríkisstjórnarinnar til framhaldsskólanna birtist í þessu og þau viðhorf verða að breytast. Það er ekki bara þörf á því heldur er það algjörlega nauðsynlegt.

Sömuleiðis vil ég nefna liði er varða Þjóðminjasafn Íslands, sem varða bæði Þjóðminjasafnið sjálft, þ.e. aukafjárveitingu vegna grunnsýningar safnsins og fjármuni til kynningarmála og sömuleiðis endurbætur vegna hússins. Nú má enginn misskilja orð mín. Ég óska okkur, þjóðinni allri, til hamingju með stórkostlegt Þjóðminjasafn og glæsilega grunnsýningu. En ég hef staðið í þessum ræðustól ár eftir ár á síðasta kjörtímabili og grenjaði yfir því að ekki væru ætlaðir fjármunir í grunnsýningu Þjóðminjasafnsins. Var því svarað á þeim tíma? Ó nei, ekki orði. Engu var breytt, eins og það ætti ekki að koma upp nein grunnsýning. Það var engu líkara en munirnir sem unnið var að forvörslu á ættu að liggja eins og hráviði á gólfinu í þessu fína safni.

Auðvitað var það aldrei ætlunin, auðvitað var ætlunin að setja þá í eitthvert fjáraukalagafrumvarp. En það er ekki forsvaranlegt að ríkisstjórnin stilli forstöðumönnum ríkisstofnana ævinlega upp við vegg og láti þá stjórna við slíkt óvissuástand sem gert hefur verið. Það er ekki forsvaranlegt að koma svona fram. Hér sést svart á hvítu það sem ég, við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og reyndar fleiri stjórnarandstöðuflokka, óskuðum eftir við fjárlagagerð oftar en einu sinni á síðasta kjörtímabili. Það kristallast hér og kemur fram í þessum fjáraukalögum.

Ég get tekið undir það sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði áðan varðandi styrkinn til þjóðsögunnar um Gretti, teiknimyndarinnar. Ég ætla að staðfesta það héðan úr þessum ræðustól sem menntamálanefnd, sem sendi umsögn til fjárlaganefndarinnar um þau verkefni sem óskað var eftir styrkjum til, sagði. Ég get staðfest það að við ákváðum að láta verkefnið hafa sömu upphæð og verkefnið hafði fengið árið áður, 2003, þ.e. 1 millj. kr. Það sem stendur í þessum texta á bls. 61 um það að framlagið hafi átt að vera 7 millj. kr. er rangt. Það átti að vera 1 millj. kr. Menntamálanefnd var beðin um umsögn og að gera tillögu og tillagan var upp á 1 millj. kr. en ekki 7 millj. kr.

Að gefnu tilefni kem ég að því einu sinni enn að það er í raun óviðráðanlegt hvernig fjárlaganefnd fær send inn ótal verkefni sem varða listir og menningu. Umbeðnir fjármunir á síðasta ári voru um 450 millj. kr. Menntamálanefnd fær allar þessar umsóknir til umsagnar en menntamálanefnd hefur ekki neinn pott eða neina fjármuni til úthlutunar til slíkra verkefna. Hún sendir þess vegna einhverjar hugmyndir og tillögur til fjárlaganefndar til baka. Síðan er undir hælinn lagt hvort fjárlaganefnd fer eftir þeim. Á undanförnum árum hefur fjárlaganefnd sinnt þeim óskum eða þeim hugmyndum sem komið hafa frá menntamálanefndinni en hún hefur oft á tíðum og iðulega bætt við pottinn. Þegar endanleg afgreiðsla málanna liggur á boðinu eru miklu meiri fjármunir til umráða en menntamálanefnd fékk tækifæri til að gera tillögur um að ráðstafa. Hvaða vit er í þessu? Getum við ekki á árinu 2004 komið úthlutunarmálunum í sómasamlegt horf?

Nú tek ég það fram að við höfum leiklistarráð sem úthlutar til leiklistarstarfsemi, til sjálfstæðra atvinnuleikhópa sem starfa vítt og breitt um landið af mikilli grósku. Leiklistarráð hefur á fjárlögum ákveðinn pott sem úthlutað er úr, þ.e. tillögur eru gerðar til menntamálaráðherra um úthlutanir úr þeim sjóði. Menntamálaráðherra fer alltaf að tillögum leiklistarráðs, sem skipað er faglega og þekkir leiklistargeirann, þekkir starfsemi leikhópanna og veit um hvað starfsemi þeirra snýst. Þar er fagleg úthlutun fjármuna sem sómi er af.

Sama hefur verið reynt að setja upp í sambandi við tónlistarráðið, sem við ákváðum á síðasta þingi að setja á laggirnar til að koma á faglegri úthlutun fjármuna. Sömuleiðis höfum við komið þessu á í tengslum við listamannalaun, faglegri úthlutun fjármuna þar sem faglegar nefndir annast tillögur um úthlutun.

Ég spyr: Hvers vegna er fjárlaganefnd ásamt menntamálanefnd að vasast í úthlutunum sem hægt væri að koma fyrir á allt annan hátt? Úthlutanir af þessu tagi, fullyrði ég, frú forseti, hafa ekkert að gera í fjáraukalög okkar, sannarlega ekki.

Kaflinn um utanríkisráðuneytið verður næst fyrir mér. Það hefur komið fram að í þeim fjárlögum sem við erum að fjalla um fyrir árið 2005 verður gífurleg aukning á útgjöldum til utanríkismála. Ég held að kostnaður utanríkisráðuneytisins eigi að hækka um fimmtung á næsta ári, um 1.150 millj. kr. ef ég man rétt. Það þýðir að útgjöld til utanríkismála verða 6,7 milljarðar kr. á árinu 2005. Samt sem áður, með alla þessa miklu fjármuni, getur utanríkisráðuneytið ekki annað en sótt um á fjáraukalögum um 300 millj. kr. Til hvers konar verkefna er það? Jú, til að mynda eru 45 millj. kr. til að hreinsa Nikkel-svæðið sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli skilaði ríkissjóði árið 2001 og til þess að standa við samning sem ríkissjóður gerði við Bandaríkjamenn um að við ættum að taka að okkur yfirborðshreinsun á landinu. Svo eru hér fjármunir til framlags vegna sérfræðikostnaðar í tengslum við Varnarmálaskrifstofu. Það eru þessar 45 millj. kr. sem utanríkisráðuneytið á að fá á þeim lið.

Ég spyr: Hvernig stendur á því að hreinsun á Nikkel-svæði varnarliðsins, sem vitað var að þyrfti að fara fram árið 2001 og sennilega miklu fyrr, skuli komið hér á fjáraukalög fyrir árið 2004? Ég get ekki látið hjá líða að spyrja um heildarkostnaðinn. Hvað eiga Íslendingar að bera mikinn kostnað vegna hreinsunar þessa svæðis út af subbuskapnum í Bandaríkjaher sem kvartað hefur verið yfir ótt og títt? Auðvitað hefði herinn átt að hreinsa þetta upp eftir sig sjálfur en ekki að skilja okkur eftir með þeirra eigin sóðaskap. Við þurfum síðan að greiða tugi eða jafnvel hundruð milljóna til að hreinsa upp eftir þá.

Það má líka gera athugasemdir við stefnu Íslendinga varðandi sendiráðsbyggingar. Í fjáraukalögunum er verið að biðja um 42 millj. í viðbótarframlag vegna flutnings sendiráðs Íslands í Brussel í nýtt húsnæði. Það er allt í lagi að almenningur viti að gert er ráð fyrir að 34 millj. kosti að endurnýja innréttingar og borga flutninginn en svo eiga að fara 8 millj. í húsgögn, 8 millj. í endurnýjuð húsgögn í sendiherrabústaðnum í Brussel, þ.e. vegna flutnings sendiráðs Íslands í Brussel. Það er verið að skipta um húsnæði og þetta þarf að koma inn á fjáraukalög. Ég minni á, og fólk má þá hafa það í huga, að á næsta ári er gert ráð fyrir að sendiherrabústaðurinn í Berlín, sem verður nýr sendiherrabústaður, taki til sín 230 millj. kr.

Ekki höfum við fengið að sjá heildarstefnumörkun íslenskra stjórnvalda varðandi vöxt eða viðgang sendiráða á Íslandi. Hér er verið að keyra frá degi til dags og ráðstafa fjármunum ríkissjóðs án þess að fyrir liggi yfirvegaðar áætlanir þar um. Það er auðvitað gagnrýnivert, virðulegi forseti.

Þá vil ég koma hér inn á alveg makalausan lið í fjáraukalögum sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið og kemur til vegna tapsins á vísindaveiðunum á hrefnu. Hafrannsóknastofnun á að fá af þessum fjáraukalögum 8,5 millj. kr. til að greiða fyrir hluta taps á vísindaveiðum á hrefnu árið 2003. Heildartapið samkvæmt niðurstöðum Ríkisendurskoðunar mun hafa verið um 12 millj. kr. Höfum við ekki séð hér einhvers staðar í þingskjölum og heyrt sagt í þingræðum að allt hvalkjötið af veslings hvölunum sem veiddir voru til vísindaveiða hafi verið selt? Átti þetta ekki allt að standa undir sér? Hvað gerðist? Getur verið að við séum að tapa á vísindaveiðunum sem áttu að vera svo atvinnuskapandi fyrir okkur og áttu að skila svo miklu í þjóðarbúið? Þetta átti að vera svo hagkvæmt. Af hverju koma ekki ráðherrarnir hérna fram og segja okkur þá hvað klikkaði? Það á bara að læða hér inn milljónum á milljónir ofan til þess að greiða tapið af vísindaveiðunum. Má ég leggja til að vísindaveiðum á hrefnu verði hætt, virðulegi forseti? Ef það á að kosta þetta plús tapið sem við verðum fyrir í ferðaþjónustunni skulum við bara hætta þessu. Mér sýnist vera sjálfhætt, ég sé ekki betur. Það verður forvitnilegt að vita hvar þetta dæmi stendur í heild sinni þegar gert verður upp ef það á að halda áfram á þeirri braut sem gert var á því ári sem nú er að líða, og ég tala ekki um þau næstu.

Vinnumálastofnun Íslands fær hér hækkaða fjárheimild sem gerð er grein fyrir á bls. 67, um 4 millj. kr., til þess að ráða starfsmann hjá Vinnumálastofnun til að annast útgáfu atvinnuleyfa vegna starfsemi á virkjanasvæðum við Kárahnjúka og vegna byggingar álvers í Reyðarfirði. Virðulegi forseti. Ég geri athugasemd við þetta fjárframlag, þessa auknu fjárheimild, og ég spyr hvort haldið sé til haga öllum þeim kostnaðarauka sem þessar framkvæmdir leiða til fyrir ríkissjóð. Er ekki orðið tímabært að við fáum að sjá rauntölur um hvað þetta feigðarflan í stóruiðjumálunum á eftir að kosta okkur og er að kosta okkur núna þau ár sem framkvæmdirnar sem áttu að skila svo ofboðslega miklu standa yfir? Hvað kostar þetta ríkissjóð í beinhörðum peningum, beint og óbeint? Ég spyr hvort þessar tölur séu inni í upphaflegum áætlunum Landsvirkjunar um heildarkostnað Kárahnjúkavirkjunar og undirbúnings fyrir álversframkvæmdir.

Það má líka vekja athygli á því, frú forseti, að þetta er ekki eini liðurinn í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem varðar stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan. Ó nei, aldeilis ekki, því að við getum séð undir kafla iðnaðarráðuneytisins, sem er á bls. 79, að það fær á þessum fjáraukalögum 3,5 millj. í viðbótarfjárheimild til þess að hreinsa álverslóðina á Austfjörðum. Hreinsa hana af hverju? Jú, jú, byggingum og girðingum og einu og öðru smálegu, það þarf að greiða sorphirðugjald af því. Í annan stað þarf að veita aukna fjármuni til þess að rannsaka fornminjar á lóð sem ætluð er undir álver Alcoa í Reyðarfirði. Iðnaðarráðuneytið fær til þess 3 millj. kr.

Það var löngu vitað þegar umhverfismat þessa álvers var gert að það gætu verið umtalsverðar fornleifar á lóðinni. Það þurfti ekki að koma hér inn í fjáraukalögin 2004. Það væri forvitnilegt, og verður auðvitað spurt um það, frú forseti, að vita hvaða fornleifar kæmu þar upp, hvaða minjar koma þar upp og hversu verðmætar þær eru. Í því sambandi er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé komið að því að við stoppum og segjum: Kannski er það bara hagkvæmara eftir allt að grafa upp fornleifarnar okkar, búa til vísindasetur í kringum þær, kortleggja þær og koma á framfæri í útlöndum, úti um allan heim, heldur en að reisa álver á lóðum sem hafa að geyma merkar fornminjar.

Sem sagt, iðnaðarráðuneytið fær hér aukna fjármuni og ég spyr: Eru þeir hluti af heildarpúllíunni, heildarkostnaði vegna álversframkvæmda og virkjanaframkvæmda á Austfjörðum?

Enn er hægt að nefna fjármuni sem fara af þessum fjáraukalögum beinlínis í það að vinna við stóriðjuframkvæmdirnar. Á bls. 81 í frumvarpinu kemur fram að Náttúrufræðistofnun Íslands fær 20 millj. kr. fjárveitingu til að vega upp á móti fyrirsjáanlegri lækkun sértekna á áætlun fjárlaga en þar munar mest um vinnu sem fyrirhuguð var fyrir Landsvirkjun og Orkusjóð en hefur nú verið frestað. Henni hefur verið frestað en hún á eflaust eftir að fara fram í annan tíma, 20 millj. kr. þar áætlaðar og eru það örugglega ekki einu 20 millj. sem Landsvirkjun á eftir að bæta við í rannsóknarvinnu út af stóriðjuframkvæmdunum.

Hér eru nefndir til sögunnar þrír liðir sem sýna svart á hvítu að stóriðjuframkvæmdirnar kosta ríkissjóð beint og óbeint gífurlega fjármuni sem mig grunar að hafi ekki verið reiknaðir inn í heildaráætlanirnar um kostnaðinn sem Landsvirkjun hefur reiknað af þessum virkjanaframkvæmdum öllum.

Já, virðulegi forseti, það eru ýmsar athugasemdir sem má gera við þetta fjáraukalagafrumvarp. Oft finnst manni eins og hér hafi verið illa ígrunduð mál og ekki staðið nægilega fagmannlega að verki. Ég tel að fjárlaganefndin eigi talsverða vinnu fyrir höndum við að rýna í einstök atriði sem hér eru til staðar og hafa verið tíunduð af fleiri þingmönnum en mér í þessari umræðu.