131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:29]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er búin að vera nokkuð löng umræða um frumvarp til fjáraukalaga og kannski ítarlegri en oft áður. Hæstv. fjármálaráðherra er búinn að fá mikið flóð spurninga um einstök atriði og ég átti satt að segja von á því að hæstv. ráðherra mundi nota þann rétt sem hann hefur til að koma þrisvar í þessa umræðu og svara einhverju af því sem við spurðum um í okkar fyrstu umferð en ekki ræð ég því.

Þegar tíma minn þraut í fyrstu umferð var ég að ræða um þá ósk að auka fjármuni til teiknimyndaverkefnisins Grettis, það sem ég leyfði mér að kalla spillingu. Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra og bæta við þær spurningar sem komið hafa: Finnst hæstv. ráðherra eðlilegt að þetta skuli koma inn í frumvarpið með þessum hætti og finnst honum eðlilegt að bjóða upp á skýringuna sem sett er fram við þessa ósk, að í huga einhverra hefði þetta átt að vera hærri upphæð en bæði menntamálanefnd og fjárlaganefnd töluðu um og Alþingi Íslendinga setti í lög?

Það er annar liður undir menntamálaráðuneytinu sama efnis og hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefndi hér, og það var Snorrastofa. Ég vil taka það fram eins og hann að ég er ekkert að leggja neinn dóm á þessi verkefni, hvorki teiknimyndina Gretti né Snorrastofu. En það sem ég er að velta fyrir mér eru þær skýringar sem eru látnar fylgja óskum um aukið fjármagn. Þarna er farið fram á 6 milljónir í stofnkostnaðarframlag vegna Snorrastofu í Reykholti. Í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram á sínum tíma var gert ráð fyrir þessu framlagi, 6 millj. kr. Síðan í 2. umr. var það fellt út, það var sem sagt breytingartillaga um að fella þessar 6 milljónir út og það var samþykkt af Alþingi.

Nú kemur hér inn ósk um að þessar 6 milljónir verði greiddar og þar segir, og það er skýringin sem ég er að furða mig á og skil ekki hvernig hæstv. ráðherra telur sig geta boðið Alþingi upp á svona skýringu:

„Þeir sem að Snorrastofu standa höfðu hins vegar miðað áætlanir sínar við að þessi fjárheimild yrði til staðar, með tilvísun í frumvarpið.“

Þýðir þetta þá að þegar lögð eru fram frumvörp hér á Alþingi, áður en byrjað er að ræða þau, áður en þau eru afgreidd, að ef einhverjir hlutir eru þar inni og einhverjir aðilar telja sig geta farið fram með ákveðnum hætti af því að eitthvað stendur í frumvarpinu, að þeir eigi þá rétt á því og jafnvel þá einhverjum bótum ef einhverjir hlutir eru felldir út úr frumvarpi í meðferð Alþingis? Þess vegna verð ég að spyrja hæstv. ráðherra að því: Telur hann þetta eðlilega málsmeðferð og telur hann þá skýringu bjóðandi fyrir Alþingi, þ.e. ósk um að þessar 6 milljónir verði greiddar?

Undir utanríkisráðuneyti er Nikkel-svæðið, og reyndar var vakin athygli á því af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Það er verið að óska eftir 32 millj. kr. vegna hreinsunar á svokölluðu Nikkel-svæði sem er í Reykjanesbæ, sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli skilaði ríkissjóði árið 2001.

Ef ég man rétt þá fór fram mjög viðamikil hreinsun á þessu svæði á árinu 2002. Herinn skilaði því 2001, tók sínar pípur og tanka og síðan, eftir því sem ég best veit, fór ríkissjóður í að hreinsa upp jarðveginn þarna og miklir jarðvegsflutningar voru frá Nikkel-svæðinu og út á svokallað DYE-5 svæði á Stafnesi, reyndar við mjög hávær mótmæli landeigenda þar því að þeir töldu að þarna væri verið að koma með mjög mengandi efni inn á land sem lá að þeirra landi, en sleppum því.

Spurningin er: Hvernig í ósköpunum getur þetta dúkkað hér upp í fjáraukalögum? Er þetta ekki dæmi um verkefni sem alls ekki á heima lögum sem þessum?

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór aðeins yfir lið undir sjávarútvegsráðuneyti sem heitir Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, og ég ætla aðeins að hnykkja á því sem hann sagði. Þarna er ráðuneytið að óska eftir 10 millj. kr. fjárveitingu til að endurgreiða Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafði greitt út styrk til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins upp á 10 millj. kr. til að þróa og smíða fiskvinnslubúnað.

Síðan gerist væntanlega eitthvað sem framkvæmdastjórnin er ekki sátt við því að hér segir:

„Í framhaldi af athugasemdum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins athugaði Ríkisendurskoðun framkvæmd samnings sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins gerði við íslenskt fyrirtæki vegna verkefnisins. Að mati Ríkisendurskoðunar var framkvæmdin ekki í samræmi við ákvæði samningsins og ríkislögmaður mat að forsendur fyrir endurkröfu styrksins á hendur samstarfsaðila væru ekki fyrir hendi.“

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fær þá 10 millj. kr. styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í ákveðið verkefni, úthlutar þeim peningum og verkefnum væntanlega til einhvers einkafyrirtækis. Það einkafyrirtæki stendur sig ekki miðað við þær forsendur sem settar eru fyrir útgreiðslu styrksins og framkvæmdarstjórnin endurkrefur íslenska ríkið um peningana.

Ríkið telur sig ekki geta náð peningunum af fyrirtækinu sem fékk þá, ef ég skil þessa grein rétt. Ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra, hafi hann um það upplýsingar, svari okkur um hvað þarna er á ferðinni. Ef upplýsingarnar liggja ekki fyrir nú þá munum við að sjálfsögðu leita eftir þeim í vinnu okkar í fjárlaganefnd.

Síðan er það sem heyrir undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Þar er verið að fara fram á auknar fjárheimildir vegna laga um siglinga- og farmvernd og það er í sjálfu sér eðlilegt. Lögum er breytt og það verður til aukinn kostnaður, 30 millj. kr. hjá ríkislögreglustjóra vegna siglinga- og farmverndar og hjá Landhelgisgæslu 9 millj. kr. eða 40 millj. kr. alls. Ég hef ekkert við þetta að athuga vegna þess að við breytum lögum hér á Alþingi og það fellur til kostnaður, talsvert mikill aukakostnaður og þessi embætti þurfa að finna leið til að mæta honum.

Það sem aftur á móti í framhaldi af umræðu sem var hér fyrr í dag veltur upp í hugann er: En hvað með sveitarfélögin? Hvað með sveitarfélögin sem þurftu að leggja í verulega mikinn stofnkostnað til að mæta kröfum þessara nýju laga? Ég veit að það var sagt við þau: Þið verðið bara að hækka gjöldin og ná fyrir þessu þannig. En sveitarfélög, mörg hver fjárvana, urðu að ráðast í dýrar framkvæmdir við hafnir sínar til þess að geta tekið þar áfram inn fraktskip eða skip erlendis frá og fyrst að talið var eðlilegt að bæta kostnað ríkisfyrirtækjunum sem verða fyrir kostnaði vegna framkvæmda við kaup á vopnum og búnaði þá veltir maður því fyrir sér af hverju á sama hátt er ekki ástæða til þess að bæta sveitarfélögunum þann kostnað sem þau verða fyrir.

Hjá sýslumanninum í Reykjavík er óskað eftir viðbótarfjárheimildum upp á 6 millj. kr. og það kemur manni svolítið á óvart til hvers þær eru, svona miðað við það sólskinsástand sem ríkir hér á Íslandi eftir því sem sagt er, vegna þess að sýslumaðurinn í Reykjavík þarf 6 milljónir til viðbótar vegna þess að fjárnámsbeiðnum hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Þeim hefur fjölgað úr tæplega 17 þúsund á árinu 2000 í 29 þúsund beiðnir á síðasta ári. Þetta hefur skapað vandræði í aðfarardeild embættisins og þrátt fyrir að búið væri að auka fjárveitingar út frá þessu til sýslumannsins í Reykjavík þá dugir það ekki til. Það er svo mikið að gera hjá sýslumanninum í Reykjavík við fjárnámsbeiðnir að hann þarf að fá sérstaka aukafjárveitingu þess vegna. Þetta er kannski stöðugleikinn og góðærið sem hér ríkir.

Tíminn er að hlaupa frá mér. Það var búið að minnast hér á Ábyrgðasjóð launa, þar er eitthvað á ferðinni sem við hljótum að þurfa að skoða, þessi stöðuga aukning á því að ríkið þurfi að greiða launþegum sem áður hafa unnið hjá fyrirtækjum sem hafa orðið gjaldþrota laun. Þarna er eitthvað um að vera sem við hljótum að þurfa að skoða, þetta getur ekki vaxið svona á hverju einasta ári.

Atvinnuleysistryggingasjóður þarf að fá hækkun upp á 948 milljónir, tæpan milljarð, og það er að hluta til vegna vitlausra forsendna um atvinnuleysisspá, líka vegna þess að atvinnuleysisbætur hækka, það er hluti af þessu. En það vekur mann til umhugsunar að við erum að bæta milljarði í atvinnuleysisbætur vegna ástandsins á vinnumarkaði og við höfum sagt að við séum að bæta talsvert mikið í bætur til öryrkja vegna ástandsins á vinnumarkaði, og þegar maður leggur þessi tvö atriði saman þá hlýtur maður að velta fyrir sér og hafa áhyggjur af hvað er að gerast.

Þetta frumvarp sem liggur fyrir, ég held að það sýni okkur að hluta til agaleysi, sjálfvirkni og ekki nægjanlegt aðhald í útgjöldum ríkisins.