131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:55]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem bárust við þeim spurningum sem ég hafði lagt fyrir hann. Það er auðvitað ljóst að hann komst ekki yfir nærri allt og verður vonandi bætt úr því á eftir en ég hef ekki annan kost en að koma upp í andsvör því ég hef lokið rétti mínum til ræðuhalda undir þessum dagskrárlið.

Varðandi Laxnessafnið er ég út af fyrir sig sammála hæstv. ráðherra að fyrst á annað borð var farið af stað var auðvitað best að ljúka því þó svo að það hafi reyndar ekki tekist heldur þarf að fresta einhverju yfir á næsta ár. Það sem ég var hins vegar fyrst og fremst að gera athugasemdir við var að það er greinilegt að áætlunarkerfið í þessu sambandi hefur verið algerlega úr samhengi við það sem upp kom síðar og þar af leiðandi voru fjárlögin röng. Vegna þess að ef ætlunin hefur verið að gera það sjáum við að ef það hefur kostað rúmlega 20 millj. kr. duga 2,5 millj. kr. náttúrlega ekki til þess að framkvæma slíka hluti þannig að áætlunargerðin hefur greinilega verið úr öllu samhengi og við það var ég að gera athugasemd.

Varðandi Snorrastofu fagna ég því sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra að þarna er orðalagið ekki rétt og afar óheppilegt og þarna hafa verið gerð mistök sem hæstv. ráðherra tekur á sig eða sitt fólk og það er ekkert við því að segja annað en fagna því að það skuli þá upplýst. Sama er að segja um Byrgið að þar hefur augljóslega orðið einhver handvömm og ég er sammála hæstv. ráðherra í því að þegar slíkt á sér stað á auðvitað bara að segja það í frumvarpinu. Það er hin rétta skýring og það á ekki að vera að fela það.

Einnig vil ég taka undir það með hæstv. ráðherra að Tetra-Ísland er augljóslega það stórt mál að við verðum að fara miklum mun nánar yfir það í fjárlaganefndinni sjálfri og eins og fram kom í fyrstu ræðu minni geri ég ráð fyrir að við munum óska eftir minnisblaði um það í fjárlaganefnd þannig að hægt sé að átta sig á hvað þarna fór úrskeiðis.