131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[15:00]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hér hafa komið fram.

Aðeins varðandi verkefnið „Grettir sterki“, ég held að við þurfum að ræða þetta í nefndinni betur en hægt er að gera hér á þessum stutta tíma. Hjá hæstv. ráðherra kom fram að menn hafi ætlað sér að setja í verkefnið 7 milljónir, og spurningin er: Hvaða menn? Hann sagði að hann hefði fengið bréf frá einhverjum, og spurningin er: Bréf frá hverjum? Er einhver undirnefnd í fjárlaganefnd sem er að senda bréf eða hvernig ganga þessir hlutir fyrir sig? Ég biðst bara velvirðingar á því ef ég á að vita það, ég er það nýr að ég átta mig ekki á því ef svo er.

Það eru tvö lítil atriði sem ég spurði um sem mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra hefði einhver svör við. Ég sætti mig þó að sjálfsögðu við það að þurfa að bíða ef svörin eru ekki á reiðum höndum. Það er annars vegar þetta skuldabréf sem Landsvirkjun er að fá hjá ríkinu og er að greiða ríkinu til baka 400 millj. kr. virkjanarannsóknir. Ég var að velta fyrir mér hvort það væri viðtekin venja að ríkið réðist í einhverjar virkjanarannsóknir hér og þar og að orkufyrirtæki sem væru að hluta til í eigu ríkisins greiddu það svo til baka eftir dúk og disk einhvern tíma og á einhverjum kjörum sem ég var að spyrja um.

Hitt atriðið sem mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti svarað varðar heimild til Flugmálastjórnar um að ráðstafa 250 millj. af eigin fé alþjóðaflugþjónustunnar til að stofna hlutafélag til að kaupa, sýnist mér, fjarskiptamiðstöðvarnar í Gufunesi af Landssíma Íslands og reka þær þá væntanlega í þessu hlutafélagi til að selja þjónustu, annaðhvort sjálfri sér eða þá einhverjum öðrum.

Að öðru leyti þakka ég ráðherra skýr svör við því sem fram kom.