131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Stéttarfélög og vinnudeilur.

5. mál
[16:11]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Við lok umræðunnar vil ég þakka þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í henni. Vegna þeirra hugleiðinga sem hér komu fram m.a. frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni varðandi það þegar verkfall væri skollið á þá hugleiddi ég það nú talsvert þegar ég var að semja málið á sínum tíma en fannst kannski ekki tímabært að setja það inn í umræðuna þá. Ég átti frekar von á því að sú krafa kæmi fram við skoðun á málinu, jafnvel bæði frá stéttasamböndum en þó kannski sérstaklega frá atvinnurekendum. En hins vegar er sú hugsun sem hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti hér áðan nokkuð rökrétt að þessu leyti.

Það kann auðvitað að vera svolítið snúið að menn boði til verkfalls og haldi vinnudeilunni alveg til streitu og séu þar af leiðandi að tryggja sér ávinning um að ákvæðin sem einhvern tíma verður samið um virki aftur fyrir sig. En við þessu er auðvitað mjög einföld útfærsla ef menn vildu fara þá leið og hún er sú að fyrir hverja tvo mánuði eða einn mánuð sem verkfall hefði staðið færu tveir mánuðir aftan af upphafshækkunartímabilinu og þetta byrjaði aftur að keyra til baka. Í þeim búningi sem frumvarpið er núna tryggir það mönnum að við lausa kjarasamninga í allt að eitt ár þá virkar ákvæðið aftur fyrir sig til alls samningstímans, eftir sex mánuði þrjá mánuði aftur fyrir sig, helming af samningstímanum sem laus er. Ef menn hins vegar keyra inn í verkföll þá byrjaði þetta að keyra til baka á hinn veginn þannig að þrýstingurinn væri í báðar áttir. Það er alveg hægt að hugsa sér slíka útfærslu og er í raun og veru bara vinna að skoða það.

Þó að ég legði málið fram sem einstakur þingmaður á sínum tíma og þá í ljósi þeirrar reynslu sem ég bjó að sem formaður stéttarfélags og síðar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands þá geri ég mér auðvitað manna best grein fyrir því að lögum eins og lögum um stéttarfélög og vinnudeilur verður ekki breytt nema þau fái rökræðu milli verkalýðshreyfingarinnar í landinu og atvinnurekenda og þar kæmi auðvitað upp slík rökræða ef menn færu í það í alvöru að skoða málið.

Þess vegna get ég alveg tekið undir það sem var í hugsun hv. þm. Ögmundar Jónassonar hér áðan, það má vel hugsa sér að láta þetta virka í báðar áttir, fyrst til þess að kjarasamningurinn virki aftur fyrir sig, síðan ef menn boða verkfall, þá byrji að telja að því. Þannig að þrýstingurinn komi til í báðar áttir.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti. Að öðru leyti þakka ég umræðuna sem hér hefur farið fram og ítreka að ég er afar undrandi á að deilan skuli vera komin á þetta stig sem útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson hefur komið henni á með gjörðum sínum. Oft hefur staðið styr og verið deilur um Guðmund Kristjánsson. Hann er að mörgu leyti hinn hæfasti maður, en hann hefur samt lag á að koma af stað deilum í kringum sig. Okkur þótti hann nokkuð góður sumum hverjum þegar hann kom til Vestfjarða og fór að gera þaðan út. Menn héldu að það mundi styrkja útgerð á Vestfjörðum, en ég er ekki viss um að hann hafi verið vinmargur þegar hann fór þaðan.