131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:39]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þessa fyrirspurn um hugsanlega einokunaraðstöðu kaupenda Símans þá er það þannig, svo ég komi að grunnnetinu, að ég er þeirrar skoðunar að það sé algjört lykilatriði að þegar Landssími Íslands verði seldur, einkavæddur, þá fylgi grunnnetið með.

Ég er hins vegar ekki hlynntur því að neinn aðili, hvorki einkaaðili né ríkisfyrirtæki sé í einokunaraðstöðu, og ég held að sú staða muni ekki koma upp. Í dag er það þannig að ríkið á þetta grunnnet en engu að síður eru samningar gerðir við þau einkafyrirtæki sem starfa á þessum markaði og þau fá aðgang að grunnnetinu gegn greiðslu á sanngjörnu endurgjaldi, eins og ég held að mælt sé fyrir um í lögum.

Ef Síminn verður einkavæddur og grunnnetið með er það ekkert sjálfgefið að þeir sem vilja nýta sér hið einkavædda flutningskerfi geti ekki komið sér inn á netið og nýtt sér það, þá náttúrlega gegn greiðslu. Sú stefna hefur verið mörkuð, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum varðandi flutningskerfi, hvort sem það er á sviði fjarskipta, orkumála eða annarra þátta í rekstri, að sé til staðar einhver eigandi dreifikerfis þá verði tryggt að aðrir aðilar sem starfa á markaði eigi aðgang inn á dreifikerfið, og þá skiptir í rauninni engu máli hvort það er opinber aðili sem á dreifikerfið eða einkaaðili svo lengi sem það er pósitíft ákvæði í lögum sem heimilar öðrum en eiganda kerfisins að nýta það. Ef menn eru á móti sölu á dreifikerfinu ættu ákvæði í lögum sem tryggja aðgang allra að þeim (Forseti hringir.) að gera ótta viðkomandi að engu.