131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:43]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að játa að ég skildi ekki alveg hver punkturinn var í þessu síðasta innleggi hv. þm. Ég sagði það áðan að menn geta með löggjöf og hafa verið að gera það hér á Íslandi, og í Evrópu og í Bandaríkjunum, að tryggja aðgengi þeirra sem ekki eiga dreifikerfi inn á dreifikerfi eigendanna. Það tryggir frjálsa samkeppni. Það sama getum við gert hér og það sama höfum við gert í löggjöf.

Hins vegar má deila um hvort ákvæði núgildandi laga séu nógu skýr og hleypi að einkaaðilum og þeim sem standa fyrir utan kerfið og eiga það ekki, hvort úrræði þeirra til að komast inn á kerfið séu nógu góð. Ég get alveg fallist á að það sé kannski ástæða til að endurskoða þau ákvæði. (Gripið fram í.)

En ég er engu að síður þeirrar skoðunar (Forseti hringir.) að nauðsynlegt sé að einkavæða dreifikerfið með hinum hluta fyrirtækisins.