131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:44]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson flutti ágæta ræðu, ágæta hugmyndafræðilega ræðu. Kommarnir hefðu ekki gert betur hér fyrr á tíð.

Önnur nálgun er praktísk nálgun. Hann nefndi nokkur fyrirtæki sem hefðu verið einkavædd í tímans rás, Ferðaskrifstofu ríkisins, Gutenberg og fleiri. Í sumum tilvikum er ég honum sammála, í öðrum tilvikum ekki. Við eigum að skoða málið praktískt.

En hann á að varast að færa hugmyndafræðilega afstöðu sína upp á okkur. Hann segir að afstaða okkar mótist í fyrsta lagi af fyrirlitningu okkar og vantrú á einstaklingsframtakinu. Það er rangt. Hún mótast af virðingu okkar fyrir heilbrigðri skynsemi.

Við spyrjum um tvennt: Hvernig verður þjónustan við landsmenn, alla landsmenn, best tryggð á því sviði sem Síminn starfar?

Þar höfum við varað við einkavæðingu og sérstaklega varðandi jaðarsvæði sem gætu orðið illa úti. Í sambandi við það getum við aftur farið í umræðu um Ríkisskip þegar núna er verið að leggja af strandsiglingar og hvernig bankarnir hafa þjónustað verr þau svæði sem eru ekki með virk veð eins og kallað er. Við getum farið inn í þá umræðu. Þetta er það fyrsta sem við spyrjum um, þ.e. um þjónustuna við landsmenn. Við skulum ekki gleyma því að þegar Síminn var gerður að hlutafélagi þá voru símgjöldin hér innan lands lægst á byggðu bóli í öllum heiminum.

Síðan spyrjum við um fjárhagshliðina: Er hyggilegt að selja Símann?

Arðsemin af Símanum er 15%. Hagnaður fyrir afskriftir í fyrra var 7.381 millj. kr. Þetta er gullkýr. Það er ekki skynsamlegt frá fjárhagslegu sjónarmiði að selja Símann. En náttúrlega er það mjög eftirsóknarvert fyrir þá sem ætla að hafa af honum gagn.

Að lokum er spurning: Ef þingmaðurinn er andvígur því að ríkið hafi afskipti af atvinnulífinu, hver er þá skoðun hans á stórfelldasta inngripi í síðari tíma sögu hvað þetta snertir, Kárahnjúkavirkjun?