131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:46]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér komu fram nokkur sjónarmið, nokkuð mörg og stór. Hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði til að byrja með um þjónustu, hvernig verði þjónustan best tryggð og hvernig einkaaðilar geti tryggt góða þjónustu.

Nú liggur fyrir eins og ég fór yfir í stuttu andsvari mínu við umræðu í gær að þjónusta Landssímans hefur verið sannarlega ljómandi fín. Heimasímar og ISDN-tengingar ná til 99,6% heimila í landinu, GSM-símar til 98% heimila og ADSL-tengingar til 92% heimila. Dreifikerfið fer ekkert þó svo að fyrirtækið verði einkavætt. Það hlutfall heimila sem verður tengt við dreifikerfi Landssímans mun ekkert minnka. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hélt hér ágæta ræðu við umræðu um málið í gær nefndi það að einkaaðilar hefðu einmitt stoppað upp í þau örfáu göt sem væru nú í dreifikerfi Landssímans, að ítölsk fyrirtæki og íslensk einkafyrirtæki hefðu þjónustað þessa hópa. Það er akkúrat það sem einkaaðilar gera. Þeir þjónusta þá sem vilja eiga við þá viðskipti. Því þarf ekkert að hafa neinar áhyggjur af þessu.

Varðandi fjárhagshliðina og gullkúna þá er það nú þannig að það er alveg rétt að Landssíminn skilar arði til eigenda sinna. Hins vegar er hann í hömlum hvað varðar eignarhaldið sem gerir það að verkum að hann getur ekki vaxið og dafnað eins og hann annars gæti gert. Ríkisbankarnir voru í sömu klöfum eignarhaldsins hér áður fyrr. En eftir að þeir voru einkavæddir hafa þeir stækkað og dafnað og eru orðnir miklu sterkari og öflugri en þeir voru áður. Þeir skila miklu meiri hagnaði eins og ég fór hér yfir (Forseti hringir.) í ræðu minni, og það hefur skilað sér margfalt í tekjuskatti til ríkisins. (Forseti hringir.) Fyrirtækið mun því stækka, (Forseti hringir.) hagnaðurinn mun aukast og hv. þm. (Forseti hringir.) þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þessir fjármunir muni ekki skila sér í ríkissjóð.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmann um að virða ræðutímann sem er stuttur.)