131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:51]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki áhyggjur af hugmyndaflugi hv. þingmanns. En ég hef áhyggjur af hugmyndalegri festu þingmannsins.

Hér á síðasta sumri var knúin í gegnum þingið lagasetning sem hamlaði samkeppni, sem dró úr viðskiptafrelsi. Þá blés forusta Sjálfstæðisflokksins m.a. á þennan hv. þm. sem sveipaðist burt eins og fis og lagðist manna harðast í vörnina fyrir þessu. Nú kemur hann og talar um samkeppnisfrelsi.

Mig langar að spyrja hv. þm. sem er svona annt um frelsi í viðskiptum. Hvað finnst honum þá um að Landssíminn skuli nota fjármagn skattborgaranna til þess að kaupa fyrir óþekkt verð stóran og líklega ráðandi hlut í einkarekinni sjónvarpsstöð? Hvað finnst honum um það? Er það ekki ríkisvæðing? Mundi ekki hv. þm. telja að það væri andstæða einkavæðingarinnar og að það væri ríkisvæðing?

Hv. þm. talar líka um nauðsyn þess að ýta undir einkaframtakið. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra séð til þess að hlutdeild hins opinbera af landsframleiðslu hefur aukist ár frá ári. Er það ekki ríkisvæðing? Hv. þm. hefur samt sem áður þegar forustumenn Sjálfstæðisflokksins blása á hann komið hingað og varið þá stefnu manna harðast.

En mér finnst það skipta máli, fyrst hv. þm. er að viðra þessar skoðanir eins og frjáls fugl sloppinn úr prísund sumarsins og dásamar viðskiptafrelsið, að hann skýri út fyrir okkur, ef við eigum að taka mark á honum, hvað hann kallar þessa vendingu Landssímans sem er að nota fjármagn sem skattborgararnir eiga til þess að taka þátt hér í slagsmálum á einkamarkaði og ríkisvæða efnilega sjónvarpsstöð?