131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:53]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ágætisspurning — ég var ánægður með að hún skyldi koma fram — varðandi kaup Landssímans á einkahlutafélagi sem er hluthafi í Íslenska sjónvarpsfélaginu, Skjá 1. Ég held ég hafi verið fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem tjáði mig um þann gjörning í fjölmiðlum þegar í ljós kom að hann hafði verið gerður. Ég sagði að þetta væri skref í ranga átt. Samkvæmt hugmyndafræði minni er ekki heppilegt að ríkið sé að auka umsvif sín á fjölmiðlamarkaði þannig að ég lýsti því yfir þá og ég lýsi því yfir nú að ég var ekkert hlynntur þeim gjörningi. Ég skil það alveg að Landssími Íslands sem hlutafélag vilji ráðast í fjárfestingar sem stjórnendurnir telja að séu fyrirtækinu til hagsbóta, m.a. til þess að nýta sínar fjárfestingar. Ég geri hins vegar miklar athugasemdir við það að fyrirtæki sem hefur eignarhald eins og Landssími Íslands ráðist í slíkar fjárfestingar. Ég hef gagnrýnt það og ég geri það aftur og stend á þeirri skoðun minni að það var skref í ranga átt.

Ég hef verið talsmaður þess hér á þingi að ríkið dragi sig út úr ýmsum rekstri. Ég hef t.d. verið flutningsmaður að frumvarpi sem mælir fyrir um að Ríkisútvarpið, sjónvarp verði einkavætt og selt þannig að það er engin tvöfeldni í mínum málflutningi og hefur aldrei verið, ekki hvað þetta atriði varðar eða önnur um þátttöku ríkisins á fjarskipta- eða fjölmiðlamarkaði.

Varðandi útþenslu ríkisins þá get ég alveg sagt hv. þingmanni það að ég hefði viljað að hún hefði verið minni en raun varð á. Ég mundi vilja sjá massífan niðurskurð á mörgum sviðum ríkisrekstrarins. En mig grunar að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé mér ekki sammála um það.