131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Ályktun ASÍ um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:13]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég átta mig ekki á því hvert hv. þm. er að fara. Hann segir að efnahagsstefnan sé mjög harkaleg. Heldur hann því fram að útgjöldin séu allt of mikil?

Ég hef skilið fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar þannig að þeir telji ekki nægilegt aðhald í fjárlagafrumvarpinu. Ég hefði þá átt von á að hv. þm. og flokkur hans flytti tillögur á Alþingi um lækkun útgjalda til ýmissa mála. En á sama tíma kemur hv. þm. hingað og krefst þess að ríkisstjórnin veiti meira fjármagn til sveitarfélaganna. Það er ekki nokkur leið að botna upp né niður í því hvert þingmaðurinn er að fara.