131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Ályktun ASÍ um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:14]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér talaði hæstv. forsætisráðherra sem ætlar að færa nokkra milljarða úr sjóðum ríkisins yfir í vasa þeirra sem hafa hæstar tekjurnar. Eitt af því sem miðstjórn ASÍ fordæmir hvað harkalegast í ályktun sinni er einmitt þessi skattastefna, þar sem þeir fá mest sem mest hafa fyrir. Þeir fá minnst sem minnst hafa fyrir. Um þetta snýst málið að sjálfsögðu.

Herra forseti. Það hlýtur að vera hæstv. forsætisráðherra umhugsunarefni hvernig staðan er á vinnumarkaði nú þegar hann hefur tekið við völdum. Við höfum þetta alvarlega verkfall grunnskólakennara og hæstv. forsætisráðherra segir: Mér kemur það ekki við. Við höfum núna fyrir okkur skoðun verkalýðshreyfingarinnar á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem hann veitir forustu og hæstv. forsætisráðherra segir: Mér er alveg sama. Hann hlustar ekki á þá.

Forsætisráðherrar verða að hlusta. Þeir sem ætla að vera farsælir í að leiða þjóð sína verða að leggja eyrun við því sem hún segir.