131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Landssíminn.

[15:24]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. fjármálaráðherra og bera fram spurningu sem ég hef borið upp áður á þinginu. Því miður var svarið út og suður og ég vil reyna á ný að fá skiljanlegt svar. Spurningin hljóðar á þá leið: Hefur Landssími Íslands hf. tryggt fjárhagslegan aðskilnað í þeirri starfsemi sem lýtur sérstaklega að virðisaukandi þjónustu, t.d. internet-þjónustu? Ég tel eðlilegt að flokkur sem kennir sig við samkeppni sjái mikinn hag í því að svara spurningunni heiðarlega svo þeir sem eiga í samkeppni við ríkisfyrirtækið Símann standi jafnfætis. Ég tel eðlilegt og í raun undarlegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki hafa svarað spurningunni með skilmerkilegri hætti og vil því gefa hæstv. ráðherra tækifæri á því að svara henni á ný.