131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[15:54]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þjóðin fékk á dögunum að fylgjast með hreint ótrúlegu ferli þegar hæstv. fjármálaráðherra skipaði í stöðu hæstaréttardómara. Mörgum almennum borgurum var og er alvarlega misboðið. Algerlega var gengið fram hjá lögboðinni umfjöllun Hæstaréttar um hæfni og hæfi umsækjenda um þessa mikilvægu stöðu. Hæstv. dómsmálaráðherra taldi sig vanhæfan í málinu og vísaði því í hendur hæstv. fjármálaráðherra sem tíndi til geðþóttarök til að réttlæta skipun lögmanns í þessa stöðu, lögmanns sem Hæstiréttur taldi ekki hæfastan umsækjenda til að gegna embættinu.

Fjölmargir hafa orðið til þess að mótmæla gjörningnum. Algerlega var gengið fram hjá tveim lögspekingum sem Hæstiréttur taldi hæfasta. Konur hljóta einnig að mótmæla skipun dómara við Hæstarétt Íslands þar sem ráðherra ríkisstjórnarinnar gætti ekki lögbundinna jafnréttissjónarmiða frekar en fyrri daginn. Í dag sitja tvær konur í Hæstarétti af alls níu dómurum. Þess vegna hefði ráðherra borið að skipa konu dómara að þessu sinni hefði hann viljað fara að jafnréttislögum enda var í hópi umsækjenda kona sem Hæstiréttur taldi a.m.k. jafnhæfa og þann umsækjanda sem að lokum fékk dómaraembættið.

Hér breyttust þá forsendur eftir hentugleika ríkisstjórnarinnar eins og síðast þegar hæstaréttardómari var skipaður. Þá var það náfrændi hæstv. forsætisráðherrans sem var dubbaður upp í dómarasætið en þá virtist skyndilega þurfa karlmann með reynslu af Evrópurétti af því að frændinn hafði eitthvað stúderað slík fræði.

Nú vantaði víst svo skyndilega karlmann með reynslu af lögmannsstörfum. Í bæði skiptin voru þessar svokölluðu hæfnisforsendur ákveðnar eftir að umsóknarfrestur var liðinn og umsækjendum sem og þjóðinni allri gefið langt nef, Hæstiréttur niðurlægður, virðing hans og sjálfstæði fótum niðurtraðkað af framkvæmdarvaldinu til að troða í sæti dómara pólitískum vígamanni sem hliðhollur er Sjálfstæðisflokknum.

Auðvitað er þetta ekkert annað en enn eitt dæmi um það hvernig þessi flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, reynir eftir fremsta megni að tryggja völd sín og áhrif í þjóðfélaginu nú þegar fjarar undan honum. Þingflokkur Frjálslynda flokksins mótmælir þessum vinnubrögðum.