131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[15:57]

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rætt er um skipan í Hæstarétt í þessum sal og í sjálfu sér er engin ástæða til að staldra sérstaklega við skoðanamun einstakra manna þegar kemur að því að menn hafi persónulegt álit á því hver hefði átt að verða skipaður í þetta skipti.

Hins vegar er ástæða til að staldra við þá umræðu sem átt hefur sér stað um þann skoðanamun sem fram hefur komið á milli annars vegar ráðherra sem skipaði í stöðuna og þess álits sem kom fram í umsögn Hæstaréttar. Í því samhengi er algjört grundvallaratriði að menn átti sig á því að ábyrgðin í þessu máli hlýtur að fylgja valdinu til þess að skipa í stöðuna. Það gengur ekki að ráðherrann hafi ábyrgðina í málinu en að Hæstiréttur hafi á sama tíma ákvörðunarvaldið um það hver eigi að verða skipaður. Það blasir við hverjum þeim sem kynnir sér málið að slíkt fyrirkomulag gengur ekki upp.

Það er í sjálfu sér rétt sem fram hefur komið hér í umræðunni, og menn hafa vísað til álits umboðsmanns Alþingis í því efni, að með dómstólalögunum á árinu 1998 var stefnt að því að auka vægi þessarar umsagnar en það var ekki síst fyrir það að í fyrri lögum sem giltu um þetta efni var í engu getið um það að hverju umsóknin átti að lúta. Ekki var heldur sérstaklega mælt fyrir um gildi þeirrar umsagnar eða áhrif. Það var því einungis verið að styrkja rannsóknarregluna með þeirri breytingu sem gerð var þá.

Það er skoðun mín að tilefnislausar athugasemdir í hvert sinn sem skipað er í réttinn séu miklu frekar til þess fallnar að grafa undan sjálfstæði réttarins en þær reglur sem við höfum um þetta efni og gilda um þessi mál í dag og hvernig þær reglur hafa verið framkvæmdar.