131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[16:02]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegi forseti. Engum blandast hugur um að tvær mikilvægustu stofnanir í okkar lýðræðislegu stjórnskipan eru Alþingi og Hæstiréttur. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að um þessar tvær virðulegu og mikilvægu stofnanir sé sátt, ríki friður, almenningur hafi tiltrú á þeim og þeim sé sýnd virðing. Þetta eru lykilstofnanir í lýðræðislegri stjórnskipan.

Nú má ljóst vera að um báðar þessar stofnanir hefur gárað nokkuð og ekki í fyrsta sinn. Umræðan hér og tilefni hennar beinist að gárum vegna Hæstaréttar. Það er alls ekki í fyrsta sinn. Í hvert skipti sem hæstaréttardómari hefur verið skipaður hafa sprottið upp deilur, mishávaðasamar. Það á ekki bara við hérlendis. Það þekkjum við einnig frá ýmsum nágrannaríkjum okkar. Að þessu sinni höfum við séð birtingarmyndina í undirskriftalistum. Við heyrum misvísandi túlkanir hjá lögspekingum ýmsum og jafnvel misvísandi skilaboð frá sjálfum Hæstarétti.

Þess vegna, virðulegi forseti, er full ástæða til að yfirfara leikreglurnar um skipan Hæstaréttar; um þær leikreglur sem eiga að gilda og við viljum að gildi um Hæstarétt, eina af mikilvægustu stofnununum okkar. Við þurfum að velta þar upp ýmsum grundvallarspurningum þannig að í framtíðinni verði Hæstiréttur sjálfur hafinn yfir slíkar pólitískar deilur, þurfi ekki að dragast inn í þær, þannig að friður verði meiri um skipan mála þar og tiltrú á þessari mikilvægu stofnun haldist.