131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[16:08]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur ítrekað komið fram í umræðunni að menn harma þann mikla ófrið sem ríkir um Hæstarétt. Menn hljóta að spyrja: Hvers vegna er þessi ófriður? Er þetta eitthvað sem menn eru að búa til eða er það fyrst og fremst vegna þess hvernig með valdið er farið, þ.e. skipunarvaldið? Getur verið að þegar menn sí og æ setja leikreglurnar eftir á svíði það fólk og særi réttlætiskennd þess? Er ekki ófriðurinn vegna þess að menn eru ósáttir við það hvernig að þessu er unnið? Eru menn ekki ósáttir við það að reglur um þekkingu í Evrópurétti, þ.e. forsendur fyrir veitingu, séu settar eftir á? Eru menn ekki ósáttir við það að upplýst sé um þá forsendu að lögmannsþekking sé nauðsynleg eftir að umsagnarfrestur rennur út?

Þær forsendur sem hæstv. ráðherra vísar til, þ.e. úr gamalli umsögn Hæstaréttar, snerust um allt annað en þetta. Þar segir Hæstiréttur að nauðsyn sé á lögmannsþekkingu vegna þess að viðkomandi mundi líklegast setjast í b-deild Hæstaréttar þar sem flutt eru skrifleg mál sem snúa að innheimtu-, gjaldþrota- og uppboðsmálum og því væri mikilvægt að þessi þekking væri til staðar. Það var það sem Hæstiréttur sagði en hæstv. ráðherra greindi ekki frá í umræðunni.

Þá er ekki síður kjarni málsins sem hér hefur komið skýrt fram, þ.e. að „jafnrétti skuli haft að leiðarljósi“ eins og segir í auglýsingunni sjálfri. Þrátt fyrir það er sú niðurstaða fengin sem hér hefur verið rakin.

Það er fyrst og fremst hvernig farið er með valdið sem hefur valdið þeim ófriði um Hæstarétt sem við hér höfum orðið vitni að. Rótin að þeim ófriði er fyrst og fremst að hæstv. ráðherrar hafa beitt geðþótta við ákvarðanir sínar og það er algerlega óþolandi, virðulegi forseti.