131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[16:11]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er mikilvægt að fyrir liggi að það er alveg ótvírætt samkvæmt lögum um þetta efni að ráðherrann hefur síðasta orðið. Það er enginn vafi á því að hann hefur heimild til að skipa hvern þann sem samkvæmt umsögn Hæstaréttar telst hæfur til að gegna starfinu. Ég skipaði þann sem ég taldi hæfastan út frá þeim forsendum sem ég lagði til grundvallar sem að sjálfsögðu eru málefnalegar forsendur og eitt af því sem Hæstiréttur sjálfur hefur oftar en einu sinni bent á og tekið með í sinn reikning.

Ég ítreka jafnframt að ég leitaði til réttarins þegar fyrir lá hver útgangspunktur minn í málinu yrði. Ég óskaði eftir því að hann legði á ný mat á umsækjendur út frá þeirri tilteknu forsendu. Rétturinn kaus að gera það ekki. Það er þá ekki við mig að sakast í því efni.

Síðan aðeins örfá orð, virðulegi forseti, um sjálfstæði dómstólanna og þau stóru orð sem menn hafa látið falla um það að með þessari ákvörðun og skipun dómara upp á síðkastið almennt hafi verið grafið undan sjálfstæði dómstólsins. Það er auðvitað furðulegur málflutningur. Framkvæmdarvaldið hefur skipað dómarana eftir þeim lögum sem um þau mál gilda. Hæstiréttur hefur frá 1920, frá því að honum var komið á legg, ævinlega verið skipaður dómurum sem framkvæmdarvaldið hefur skipað. Sjálfstæði dómstólsins fer ekki eftir því hvaða ráðherra skipar dómarana sem sitja venjulega miklu lengur í embætti en ráðherrarnir. Það fer eftir því hvernig dómararnir sinna störfum sínum, hvernig þeir gegna þeim skyldum sem á þá eru lagðar í dómnum, með hvaða hætti þeir sinna dómaraverkefnum sínum. Ég þekki ekki dæmi um það að í Hæstarétti hafi verið dómarar sem hafa ekki sinnt þeim eftir bestu samvisku eða hafa gefið tilefni til að ætla að þeir séu ekki sjálfstæðir í störfum sínum gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ég skora á menn sem halda öðru fram að finna þannig orðum stað við tækifæri.