131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:55]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst í beinu framhaldi af því sem rætt hefur verið hér á undan þá hefur nú verið erfitt að átta sig á því hver munurinn er á stefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Það hefur hins vegar einhver ágreiningur verið á ferðinni og vandræðagangurinn við sölu Símans er náttúrlega með þvílíkum eindæmum að leita þarf langt til að finna annað eins. Árið 2001 átti að hrinda sölunni af stað. Allir muna a.m.k. í þessum þingsölum hvernig það fór allt saman. Síðan hafa menn hnoðast með málið á vegum Sjálfstæðisflokksins fram á þennan dag. Þegar ný ríkisstjórn kemur til valda er það fyrsta verk forsætisráðherra að skipa mann í einkavæðingarnefnd á sínum snærum til að leiða málið. Þá bregður svo við að undirbúningnum virðist svo ábótavant að leita þarf ráðgjafar út um allt til að finna út úr því hvernig eigi að standa að málinu. (Gripið fram í: Breyttar aðstæður.)

Nú er langt liðið á árið 2004 og undirbúningurinn er nú ekki betri en þetta enda eru, eins og heyrst hefur vel í þessari umræðu, álitamálin eru mörg og hafa stjórnarflokkarnir ekki tekist á við mörg þeirra. Það er bara tekin ákvörðun um að selja eigi Símann og virðist nánast sem einungis hafi verið fengist við þá einu setningu. Framsóknarflokkurinn sagði já, enda vil ég meina að það séu fleiri en bara Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem sjá ekki muninn á þeim flokkum. Það var þó þannig í sögunni um Bakkabræður að þeir áttuðu sig á því hvaða löpp þeir áttu þegar barið var í þær en það þurfti að gera til að þeir áttuðu sig á því hver ætti fótinn. En í núverandi ríkisstjórn er málið þannig vaxið að þegar á að herða á virðist ekki vera nokkur leið að átta sig á því hver á hvaða löpp.

Mér finnst að þegar Framsóknarflokkurinn er með þann kattarþvott að það eigi að halda eftir einhverjum fjármunum til þess að koma á betri fjarskiptum í landinu, þá eigi menn ekki að komast upp með það. Ég segi það alveg eins og er. Ég held því ekki fram að ekki sé ástæða til að styðja við þetta. En þegar menn hafa horft upp á allan þennan tíma líða án þess að tekið væri almennilega á þessum málum, á meðan ríkið á Símann, þá veltir maður því fyrir sér hvort það er eitthvað trúverðugra þegar menn tala um að setja peninga í að gera hlutina. Það er það sem mér finnst vera undarlegt í þessu máli.

Hér hafa menn í allt sumar verið með umræður um það að nú þyrfti að taka á einokunarfyrirbrigðum í samfélaginu og koma í veg fyrir hringamyndanir og einokun. Hvar skyldi nú vera meiri einokun til staðar en sú einokun sem verið er að koma á með sölu Símans án þess að taka grunnnetið undan? Síminn, sem er með 74–75% af öllum viðskiptum í fjarskiptum í landinu, á að hafa grunnnetið þar sem hinir þurfa að koma á hnjánum til hans. Samgönguráðherra stóð fyrir því að sett voru lög sem settu kvaðir á þá sem væru með grunnnet, að aðrir hefðu aðgang að þeim, þessum grunnnetum. Það átti að leysa öll þessi vandamál um samskiptin. Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að nú eru fyrirtækin á fjarskiptamarkaði að byggja sem óðast upp önnur net. Það er það sem við fáum út úr þessu, þ.e. að margföld fjárfesting er farin í gang við grunnnetin í landinu. Íslendingar hafa alltaf efni á því að eyða peningum. Það er ekki undantekning á því í þessu tilviki.

Þarna hefði verið hægt að hafa sömu afstöðu til mála og gagnvart raforkukerfinu, að reyna að sjá til þess að það yrði ekki margföld fjárfesting í því og hægt yrði að nýta sameiginlegt net til þess að keppa á. Það er nánast búið að eyðileggja þann möguleika með framgangi ríkisstjórnarflokkanna.

Ég ætla að snúa mér að þingmálinu. Við erum að miklu leyti sammála því sem í því stendur enda er ég 1. flutningsmaður að annarri tillögu sem kom inn í upphafi þings um endurskoðun á sölu Símans. Það er fyrst og fremst tillaga um að menn reyni að bjarga því sem bjargað verður með því að (Gripið fram í.) taka grunnnetið undan Símanum og reyna að sameina aðila á markaðnum um eitthvert grunnnet. Það er ekki víst að það sé hægt miðað við hvernig komið er en það væri a.m.k. tilraunarinnar virði. Að því leyti erum við sammála. Svo er hægt að hafa langt mál um það hvernig framgangurinn verður þegar Síminn er með þetta grunnnet.

Ég gerði t.d. tilraun til þess að leita mér upplýsinga um hvernig staðið yrði að því að fá viðbætur í kerfið þegar búið væri að einkavæða Símann með grunnnetinu, ef ríkisstjórnin og Alþingi vilja koma á skárra símasambandi og betri þjónustu á einhverju tilteknu landsvæði og láta í það peninga. Hvað gera menn þá? Jú, þá verður það boðið út. Hverjir eiga að keppa við Símann um viðbæturnar á markaðnum þegar hann á allt grunnnetið úti á landi? Hvað verður að marka tilboðin sem verða gerð í viðbætur úti á landsbyggðinni þegar einn aðili á netið sem þar er til staðar?

Þetta er mikið umhugsunarefni og ástæða til þess að hv. þm. Birkir J. Jónsson eða aðrir sem mæla fyrir þeirri stefnu Framsóknarflokksins að láta peninga í þetta, útskýri hvernig þeir ætli að standa að því að fá fram þessar úrbætur, hvort þeir ætla að semja bara við Símann, fá eitthvert gott verð hjá honum, einkavæddum og í höndunum á mönnum sem kunna að reka bisness, eða hvort þeir ætla að bjóða út og láta þessa litlu sem eru á markaðnum bjóða í á móti Símanum, keppa á grundvelli sem er ónýtur, vonlaus. Er það þetta sem menn ætla sér? Það hefur ekki verið útskýrt og er ástæða til þess að kalla eftir því hvernig menn ætla að standa að þeim hlutum.

Hægt væri að hafa langt mál um símamálið sem einkavæðingarmálefni. Það er nefnilega dæmi um það hvernig menn eiga ekki að standa að hlutunum. Hverjar eru skyldur ríkisins þegar til stendur að einkavæða starfsemi eins og þessa? Fyrst og fremst að sjá til þess að til verði samkeppnisumhverfi sem virkar. Þar hafa menn hjá ríkisstjórnarflokkunum brugðist. Það hefði verið hægt að gera með því að til hefði orðið sameiginlegur samkeppnisgrundvöllur fyrirtækjanna á neti sem hugsanlega hefði líka verið hægt að einkavæða ef það hefði endilega þurft að þjóna lund manna. En það var ekkert nauðsynlegt. Aðalnauðsynin er að búa til farvegina, þjóðvegina fyrir skilaboðin og merkin sem fyrirtækin senda.

Ég ætla ekki að hafa mikið lengra mál um þetta. Mér finnst að ríkisstjórnin hafi valið kosti án þess að fara ofan í þá og hafi eytt ótrúlega löngum tíma í málið. Miklu lengri en hægt er að fyrirgefa ríkisstjórnarflokkunum fyrir að hafa eytt í mál þegar komið er með það til afgreiðslu í því klúðri sem það er eins og í stefnir. Niðurstaðan er að möguleikarnir til þess að bjarga málinu eru enn þá til staðar en næstum búið að eyðileggja þá. Kannski var það alltaf meiningin, kannski hafa menn aldrei viljað gera hlutina þannig að til yrði almennilegt samkeppnisumhverfi og möguleikar til þess að þjóna landinu öllu á eðlilegum samkeppnisgrundvelli. Hvað á maður að halda þegar málið er að enda með þeim endemum sem við sjáum?