131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:22]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef bæði í dag, og eins þegar umræðan hófst í síðustu viku, fylgst af áhuga með henni. Ástæða þessarar umræðu er frumvarp sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jón Bjarnason eru flutningsmenn að. Sala Landssímans hefur verið í umræðunni mörg undanfarin missiri. En ástæðan fyrir því að ég kem í ræðustól, frú forseti, er fyrst og fremst að mér finnst gæta ákveðins misskilnings í umræðunni, eiginlega að tvennu leyti.

Í fyrsta lagi hafði hv. þm., síðasti ræðumaður, orð á því að hömlur væru á því að menn sætu við sama borð í samkeppni fjarskiptafyrirtækja. Ég vildi upplýsa hv. þm. um að eignarhald dreifikerfisins ræður ekki öllu um það. Dreifikerfi Landssímans, flutningskerfið sem slíkt, er aðskilið frá öðrum þáttum í rekstri þess fyrirtækis og með lögum sem þingið hefur sett er tryggt að öll fjarskiptafyrirtæki sitji við sama borð gagnvart dreifikerfinu.

Við höfum stofnun eins og Póst- og fjarskiptastofnun sem fylgist með því að engar aðgangshindranir séu fyrir önnur fjarskiptafyrirtæki sem selja landsmönnum þjónustu sína. Það að halda dreifikerfinu í ríkiseign eða undanskilja þær sölunni er ekki nauðsynlegt til að tryggja samkeppnisaðstöðu fjarskiptafyrirtækjanna.

Hinn misskilningurinn sem ég vildi hafa orð á var að hv. þm. talaði um að klára uppbyggingu grunnnetsins. Það kemur mér spánskt fyrir sjónir vegna þess að menn klára aldrei uppbyggingu á neinu sem heitir grunnnet fjarskipta á Íslandi. Í því samhengi langar mig að nefna að það eru ekki mörg missiri síðan stjórn Landssímans þóttist hafa háleit markmið um að ISDN-væða allt landið en ADSL-tengingar þóttu á þeim tíma ekki raunhæfar fyrir einstaklinga.