131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:24]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka vinsamlegar og góðar ábendingar. Ég hef eins og hv. þm. áttað mig á því að ný tækni býður endalaust upp á breyttar aðferðir við samskipti manna milli landsvæða og neytenda. Ég nefndi það í ræðu minni en þakka ábendingu þingmannsins að því leyti. Ég tel hana rétta.

Ég tók fram að dreifikerfi framtíðarinnar væri vafalaust ekki það sem við sjáum fyrir okkur einmitt í dag. Um það held ég að við þurfum ekki að gera mikið mál. Ég hygg að ný tækni muni alltaf leita inn á svið þar sem hennar er þörf. Ég var einfaldlega að benda á að eftir því sem fleiri fyrirtæki legðu eigið dreifikerfi þá yrði kostnaðurinn meiri fyrir notendur.

Varðandi hitt atriðið, sem snýr að byggðunum, þá er staðreyndin einfaldlega sú að fámennar byggðir og sveitir þessa lands eru ekki eins eftirsóknarvert markaðssvæði og þar sem fleiri búa. Þar af leiðandi álít ég að við þurfum að hafa fyrirtæki í eigu ríkisins til að tryggja að fámennari svæði fái sömu möguleika og þjónustu þar sem einkafyrirtæki muni frekar sækja inn á þéttbýlli svæði.