131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:29]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Okkur greinir sennilega ekki mikið á um að reyna beri að tryggja að neytendur hér á landi hafi sem jafnasta stöðu við að nýta sér dreifikerfi, sem færir fólk á sama stað með tækninni. Ég er hins vegar engu nær um það hvernig Framsóknarflokkurinn ætlar að tryggja þessi markmið með því að taka til hliðar fjármuni við sölu Símans. Hv. þm. sagði sjálf í andsvari áðan að það væri ekki fyrirsjáanlegt hvernig dreifikerfið verður til framtíðar eða hvernig það mun byggjast upp.

Framsóknarflokkurinn getur alls ekki kortlagt það hvaða fjármuni þarf að leggja til hliðar til að byggja upp dreifikerfi sem dugar fyrir framtíðina. Þess vegna held ég að það væri skynsamlegast, virðulegi forseti, að við yrðum sammála um að dreifikerfið yrði ekki selt, að um það yrði stofnað sérstakt fyrirtæki.

Það tæki vafalaust einhver ár að láta slíkt fyrirtæki vinna þau verk sem við höfum verið að tala um að allir ættu að fá að njóta. Það væri hægt að meta það eftir 4–5 ár hvort menn treysti sér þá til að taka frá fjármuni til að tryggja dreifinguna. Ég átta mig ekki á því hvaða fjármuni þarf að leggja til hliðar til að tryggja framtíðina eins og Framsókn vill.