131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:47]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Afstaða hv. þm. Ögmundar Jónassonar og Vinstri grænna er þröng að því leyti að þeir eru eini flokkurinn á þingi sem er andvígur sölu Símans í það heila. Aðrir flokkar hafa ákveðinn fyrirvara við það að selja dreifikerfið líka með þeim rökum sem við höfum rætt fyrr í dag. En hv. þm. kýs líka í umræðu sinni og þegar hann ber þetta saman við sölu ríkisbankanna að gleyma því hvernig sú sala og einkavæðing bankanna hefir leitt til lækkunar vaxta fyrir neytendur, fyrir þjóðina ásamt öðrum málum sem varða Íbúðalánasjóð og ráðstafanir þar.

Hann kýs líka að gleyma því hvernig fjarskiptin og samkeppni á fjarskiptamarkaði hefur orðið til hagsbóta fyrir neytendur í lækkuðum kostnaði við fjarskiptin á síðustu árum. Einnig hefur tækninni fleygt verulega fram.

Ef maður lítur til þess hvar stuðningurinn er á Alþingi er mikill meiri hluti langt út fyrir stjórnarmeirihlutann hlynntur því að selja Landssímann. En áhyggjur manna hafa beinst að því hvernig við ætlum að tryggja áframhaldandi uppbyggingu grunnnetsins við þá sölu til að tryggja að það sé samkeppnisgrundvöllur og að við þjónum hinum dreifðari byggðum og tryggjum öryggi landsmanna og útlendinga á ferð um landið. Ákvörðun Framsóknarflokksins miðaði að því á sínum tíma, að tryggja fjármagn til að tryggja hagsmuni hinna dreifðari byggða og öryggi landsmanna á ferð um landið, þó Síminn væri seldur.