131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[18:18]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta frumvarp sé alveg skýrt. Þetta er einföld breyting á gildandi lögum þar sem er heimild til staðar fyrir ríkið að selja allan eignarhlut sinn í Símanum. Við leggjum til að sú heimild verði tekin úr sambandi og öllum áformum um slíka sölu verði frestað a.m.k. til ársloka 2008. Þá verði tekin ákvörðun og það verði í höndum þess meiri hluta og þess Alþingis sem þá situr, vonandi gæfulega saman sett hvað varðar meiri hluta og minni hluta, að ráða um framhaldið. Það gæti hugsanlega þýtt áframhaldandi óbreytt eignarhald á þessu þjóðarfyrirtæki og það vildum við gjarnan sjá fyrir okkur, að menn veldu þá leið að fara að losa um eignarhald ríkisins í einhverjum áföngum. Það yrði t.d. norska leiðin í þessum efnum og ég hef iðulega spurt hvers vegna í ósköpunum menn skoði hana ekki hér. Hér á að gera þetta á einu bretti, henda fyrirtækjunum út á markaðinn í einu lagi og selja jafnvel einum aðila, þess vegna útlendum. Og það jafnvel þótt umræður verði uppi í þjóðfélaginu um að kannski verði þetta fyrirtæki okkar síðan sameinað búlgarska símanum og notað sem stökkpallur til útrása í símamálum í Austur-Evrópu. Þetta virðist ekki valda mönnum áhyggjum.

Ég held að það sé líka alveg skýrt eða vonandi verður það alveg skýrt ef menn leggja betur eyrun við að við erum ekki bara að tala um ástandið eins og það er í dag. Ég hef lagt á það áherslu allan tímann og sérstaklega í framsöguræðu minni. Það er ekki síður spurningin um þróunina inn í framtíðina sem við erum að velta fyrir okkur. Verði grunnnetið einkavætt þá á einn af samkeppnisaðilunum á þessum markaði í einkaeigu allt undirstöðufjarskiptakerfið í landinu. Hann á ljósleiðarana, örbylgjusamböndin, hann á koparlagnirnar inn í húsin, hann á möstur, hús og tengivirki, hann á jarðstöðvarnar fyrir samböndin til útlanda og hann á eignarhlut Íslendinga í sæstrengjum. Þá fara viðskiptalegar ákvarðanir þess fyrirtækis að ráða öllu í framhaldi um uppbygginguna og það verða samkeppnishagsmunir þess fyrirtækis sem ráða en ekki þjónustuskyldurnar við íbúa í strjálum byggðum. Það er þetta sem við höfum verið að reyna að koma inn í hausinn á mönnum en gengur greinilega misjafnlega vel.