131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[18:21]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. um það hvað skeður ef við einkavæðum Landssímann þá gat ég ekki heyrt annað en fyrirvarar hv. þm. væru fyrst og fremst í því að selja grunnnetið, selja dreifikerfið með vegna þess að það mundi skapa tiltekna stöðu sem tryggði í rauninni að ekki yrði ráðist í frekari uppbyggingu grunnnetsins og þá stæðu hinar dreifðari byggðir út af borðinu. Ég gat ekki skilið síðustu orð hv. þm., og lagði ég vel við hlustirnar, öðruvísi en svo að rökin væru fyrst og fremst þau að halda grunnnetinu í ríkiseign.

Eins og við erum líka sammála um þá erum við með löggjöf og erum með Póst- og fjarskiptastofnun sem tryggir jafnan aðgang allra. Ég held að áhyggjuefnið sem við ættum að hafa og ættum kannski að deila sé það hvernig við getum tryggt áframhaldandi uppbyggingu grunnnetsins þrátt fyrir söluna þannig að við tryggjum jafnræði allra byggða landsins.

Rétt aðeins í lokin, herra forseti, langar mig til að nefna eitt sjónarmið sem ég held að hafi líka komið fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Það er ákveðið áhyggjuefni að við séum ekki að leita þjóðhagslegrar hagkvæmni við uppbyggingu dreifikerfisins, t.d. uppbyggingu Línu.Nets í Reykjavík, að menn séu ekki alls staðar að leggja einhvers konar dreifikerfi, mig minnir í einhverjum uppsveitum Borgarfjarðar, af því að mönnum finnst uppbyggingin ekki ganga nógu hratt hjá Landssímanum við að tryggja öllum háhraðatenginguna sem óhjákvæmilega er forsenda þess að menn sitji við sama borð gagnvart kostnaði. Og ég vildi gjarnan sjá einhverja stefnu sem samgönguráðherrann mundi vinna að og einhverja sátt um það að við værum þó að byggja upp eitt dreifikerfi en ekki mörg grunndreifikerfi sem menn ættu svo allir jafnan aðgang að á sama kostnaði.