131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[13:55]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Það þarf ekki að fjölyrða um þær aðstæður sem heyrnarlausir hafa búið við og telja verður óviðunandi. Þær hafa m.a. gert það að verkum að þeir geta ekki tekið þátt í daglegu lífi eins og þeir eiga rétt til og við viljum að þeir geri. Ég nefni sem dæmi að það er ekki gott að heyrnarlausir foreldrar geti ekki sótt foreldrafundi í skólum barna sinna og rekið önnur erindi sem borgarar í þjóðfélaginu þurfa að sinna vegna þess að þeir fái ekki nauðsynlega túlkaþjónustu.

Ég fagna því frumkvæði sem Félag heyrnarlausra sýndi með því að leggja fram þær hugmyndir sem menntamálaráðherra hefur lýst yfir að muni koma til framkvæmda. Ég lýsi ánægju með meðhöndlun ríkisstjórnarinnar á þessu máli. Það að veita 10 millj. kr. á fjárlögum til þessa málaflokks er talið nægja til að bæta úr brýnni þörf heyrnarlausra fyrir táknmálstúlkun við helstu athafnir daglegs lífs og því ber auðvitað að fagna.

Ég get líka lýst því að sem formaður fjárlaganefndar mun ég beita mér fyrir því að ósk ríkisstjórnarinnar um þessa fjárheimild í fjárlögum næsta árs verði vel tekið og hún fái sinn stað í fjárlögum. Ég tek undir það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt og óska auðvitað heyrnarlausum til hamingju með árangurinn og tel að hann sé okkur öllum til sóma.