131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[13:57]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Túlkun fyrir heyrnarlausa er málefni sem hefur verið í miklum ólestri. Það er í raun til vansa fyrir okkar ríka velferðarþjóðfélag að heyrnarlausir skuli hafa verið jafnutanveltu og raun ber vitni. Þessi þögli hópur sem telur aðeins um 1 prómill þjóðarinnar hefur löngum sýnt mikla þolinmæði. Það er ekki hægt að segja að hann hafi haldið uppi miklum kröfum gegnum tíðina. Þetta fólk hefur borið fötlun sína af æðruleysi, ekki kvartað heldur beitt kröftum sínum að því að standa sína plikt sem nýtir og ábyrgir þjóðfélagsþegnar. Í ljósi þessa hefur manni sviðið að verða þess áskynja að heyrnarskert og heyrnarlaust fólk mætir ósýnilegum múrum sem gera því erfitt fyrir í daglegu lífi og það að tilefnislausu.

Hvernig má það vera að heyrnarlausum hafi verið gert að borga sjálfir fyrir jafnsjálfsagða hluti og að eiga orðaskipti við vinnuveitendur þegar þeir eru í atvinnuleit, að þurfa að greiða fyrir að geta tjáð sig þegar þeir leita læknisaðstoðar eða þegar þeir kaupa eða leigja fasteignir eða annað sem er nauðsynlegt hverjum og einum?

Hvernig stendur á því að það er ekki hægt að texta fréttir sjónvarps sem eru allar fluttar samkvæmt handriti eða því sem næst? Hvers vegna er ekki hægt að texta þetta efni? Af hverju er ekki hægt að hafa táknmálstúlka til staðar við mikilvægar umræður á Alþingi eða texta t.d. eldhúsdagsumræður sem langflestir þingmenn flytja eftir skrifuðu handriti?

Hvers vegna í ósköpunum var ekki hægt að hafa táknmálstúlk til staðar í sal Alþingis við þessar umræður sem sendar eru beint út í gegnum þessa myndavél á veggnum? Hvers vegna var það ekki hægt? Þetta hefði átt að vera sjálfsagður hlutur. Við vitum að heyrnarlausir eru að horfa á sjónvarpið núna en þeir heyra því miður ekki.

Það ber að fagna ræðu hæstv. menntamálaráðherra áðan. Geta skal þess sem gott er, að sjálfsögðu. En við megum ekki gleyma því að margt er enn þá ógert í málum heyrnarlausra og við í þingflokki Frjálslynda flokksins munum að sjálfsögðu beita okkur í þeim málum á þinginu sem nú fer í hönd.