131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[14:07]

Forseti (Halldór Blöndal):

Að gefnu tilefni, ræðum tveggja hv. þingmanna Samfylkingarinnar, tel ég rétt að lesa bréf sem mér barst í morgun. Það er dagsett í gær, 11. október 2004.

„Þingflokkur Samfylkingarinnar fer hér með fram á við forseta að við umræður utan dagskrár um túlkaþjónustu þriðjudaginn 12. október 2004 verði táknmálstúlk leyft að standa við hlið ræðupúlts og túlka orð ræðumanna á táknmáli meðan á umræðunni stendur. Þannig komast ræður þingmanna til skila, ekki eingöngu á þingpalla heldur líka til þeirra sem fylgjast með umræðu í sjónvarpi.

Þingflokkur Samfylkingarinnar mun að sjálfsögðu greiða fyrir þessa þjónustu og meðan slíkt er ekki á fjárlögum Alþingis.“

Undir bréfið ritar fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokksins.

Ég vil af þessu tilefni taka fram að að sjálfsögðu voru ekki tök á að verða við slíkri beiðni sem barst svo seint. Slík umræða verður að vera vel undirbúin. Nauðsynlegt er að ræða hana við formenn þingflokka og jafnræði verður að vera á milli flokka. Það er jafnframt nauðsynlegt að einstakir ræðumenn sem taka þátt í slíkri umræðu hafi tækifæri til að kynna mál sitt fyrir þeim túlkum sem mundu vilja túlka mál þeirra.

Á hinn bóginn hef ég af þessu tilefni tekið ákvörðun um að athugun verði gerð á því hvað það mundi kosta að umræður á Alþingi yrðu túlkaðar á táknmál. Jafnframt hef ég tekið ákvörðun um athuga hvernig best yrði fyrir komið í framtíðinni ef umræður yrðu túlkaðar jafnharðan.

Ég ítreka það sem ég sagði áður, að slíkt nýmæli þarfnast góðs undirbúnings. Ég vil líka ítreka það sem ég sagði, að jafnræði verður að vera milli flokka þegar slíkar umræður eru túlkaðar með þessum óvanalega hætti. Rétt er að þær séu kynntar rækilega áður.

Við höfum lagt áherslu á það á Alþingi að reyna að standa vel að málefnum fatlaðra eftir því sem þessi gömlu húsakynni leyfa. Hugmyndin er að fylgja því eftir í framtíðinni.