131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[14:11]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem, ef samþykkt verður, mun leiða til þess að matarreikningur íslenskra heimila lækkar um 5 milljarða kr. Þetta mál hefur átt hljómgrunn í nánast öllum flokkum á hinu háa Alþingi með einni undantekningu. Mér er sagt frá því, herra forseti, opinberlega af sjálfum hæstv. fjármálaráðherra, að það hafi ekki verið hægt að ráðast í skattalækkun af þessu tagi vegna þess að Framsóknarflokkurinn, flokkur hæstv. forsætisráðherra, hafi séð á því tæknilega annmarka. Af því að einn af fulltrúum og talsmönnum Framsóknarflokksins gengur í salinn, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, talsmaður flokksins í efnahags- og viðskiptanefnd, þá veit ég að hún mun skýra út fyrir þingheimi hvað veldur því að Framsóknarflokkurinn treystir sér ekki til að ráðast í þessa sjálfsögðu skattalækkun.

Samfylkingin hefur lagt fram mjög ítarlega stefnu varðandi skattamál. Fulltrúar flokksins í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd hafa unnið mjög gott og þarft verk við að undirbyggja þá stefnu. Það má segja, herra forseti, að kjarninn í þeirri stefnu sé þríþættur. Í fyrsta lagi telur Samfylkingin að það eigi ekki að ráðast í neins konar skattalækkanir ef þær hafa í för með sér niðurskurð á hinu félagslega velferðarkerfi, menntakerfi og heilbrigðisþjónustu. Í öðru lagi teljum við að ef það er svigrúm til skattalækkana þá eigi að nota það til að byrja á að lækka matarskattinn, nota svigrúmið til þess að draga úr dýrtíðinni á íslenskum matvælum. Í þriðja lagi teljum við að það eigi að ráðast í að afnema stimpilgjöld, ekki síst til að aðstoða þá fjölmörgu Íslendinga sem um þessar mundir vilja notfæra sér jákvæðar breytingar á lánamarkaði til að endurfjármagna húsnæðislán sín og þurfa að greiða hundruð þúsunda króna í stimpilgjöld. Þetta er kjarninn í skattastefnu Samfylkingarinnar. Ég mæli fyrir því sem við getum kallað oddamálið í þessari stefnu, þ.e. lækkun matarskattsins.

Það má segja að í stefnu okkar birtist skýrt munurinn á annars vegar skattastefnu Samfylkingarinnar, sem byggir á jöfnuði, og hins vegar skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Reyndar eru ríkisstjórnin og Samfylkingin sammála um að á næstu missirum muni skapast svigrúm til skattalækkana. Við teljum að ef vel tekst til við stjórn efnahagslífsins og ef ríkisstjórnin ber gæfu til þess að hlíta aðvörunarorðum verkalýðshreyfingar og stjórnarandstöðu varðandi tiltekna þætti muni þetta svigrúm skapast. Við viljum nota þetta svigrúm til að byrja á að lækka skatta með þeim hætti að þeir fái mest sem minnst hafa, að þeir fái langmest sem í dag búa við að þurfa að framfleyta sér af bótum almannatryggingakerfisins. Þá bíður okkur það verkefni að reyna að finna aðgerðir til að lækka skatta sem uppfylla þessar forsendur okkar jafnaðarmanna.

Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að besta og líklegasta leiðin til þess að ná þessum árangri, ná þessu markmiði, sé að lækka matarskattinn. Það er alveg sama hver staða manna í samfélaginu er, allir þurfa að verja hluta af ráðstöfunartekjum sínum til þess að kaupa sér það sem við getum skilgreint sem brýnar nauðþurftir. Allir þurfa að kaupa sér kjöt, mjólk, grænmeti, fisk, brauð, mjölvöru. Enginn getur komist hjá því að eyða töluverðum hluta af tekjum sínum í nauðþurftir af þessu tagi. Eftir því sem menn hafa lægri og minni ráðstöfunartekjur hækkar það hlutfall að öllum líkindum sem þeir þurfa að verja til þessara nauðþurfta.

Ef það tekst að lækka matarverð er um leið verið að hjálpa þeim hlutfallslega mest sem hafa minnstar ráðstöfunartekjur. Þess vegna segjum við að röðin eigi að vera þessi: Það á að byrja á að lækka matarskattinn, það á að afnema stimpilgjöld og síðan skulum við velta því fyrir okkur hvernig heppilegt sé að ráðast í lækkun á tekjuskattinum. Það er hugsanlegt að sú leið sé fær sem ríkisstjórnin hefur lagt til, þ.e. að lækka skattprósentuna. Það er líka hugsanlegt að betra sé að verja því fjármagni sem til þess fer til að hækka skattfrelsismörkin. Það eru ýmsar leiðir til í þessu og Samfylkingin er alveg reiðubúin í umræðu um þær. En við teljum að á þessu augnabliki eigi að nota svigrúmið til þess að fara þessa leið.

Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að efnahagsstefnan sem birtist í fjárlagafrumvarpinu sem ríkisstjórnin hefur nýlega lagt fram hefur verið harðlega gagnrýnd af verkalýðshreyfingunni. Það hafa komið fram andmæli við henni frá öllum hlutum verkalýðshreyfingarinnar. Alþýðusamband Íslands hefur núna á allra síðustu dögum gengið fram fyrir skjöldu og sett formlega fram ákaflega harðorð mótmæli. ASÍ hefur beinlínis sagt að hluti af þeirri efnahagsstjórn sem birtist í frumvarpinu — tekin er sérstaklega fram sú leið sem farin er varðandi skattalækkanir — verki eins og verið sé að hella olíu á eld. Það hlýtur að vera þannig, herra forseti, að þegar Alþýðusamband Íslands og reyndar verkalýðshreyfingin öll talar með þessum hætti að menn staldri a.m.k. við og hlusti.

Í þeirri harðorðu mótmælaályktun sem miðstjórn Alþýðusambandsins samþykkti á dögunum var sérstaklega tekið fram að tryggja þyrfti betur en gert væri í fjárlagafrumvarpinu að skattalækkanir skiluðu sér til þeirra sem mest þyrftu á þeim að halda. Staðreyndin er því miður sú að það gerist ekki í fjárlagafrumvarpinu sem núna liggur fyrir hinu háa Alþingi. Við í Samfylkingunni höfum t.d. sýnt fram á það, og það hefur ekki verið hrakið með neinum rökum og ekki neinar tilraunir verið gerðar til þess að andmæla því af hálfu stjórnarliða, að obbinn af þeim fjárhæðum sem verja á til þess að lækka tekjuskatt fer til þeirra sem hafa mest fyrir, þ.e. um það bil 2,5 milljarðar sem á að kosta til skattalækkana fara í vasa þess fjórðungs sem hefur mestar tekjur.

Við höfum sett fram ákaflega sláandi dæmi til þess að skýra þetta. Grunnskólakennarinn sem er í verkfalli fær í skattalækkun á mánuði sem svarar til tæplega einum bleyjupakka. Milljónkrónamaðurinn fær á hverjum mánuði sem svarar til einnar utanlandsferðar í skattalækkun frá ríkisstjórninni. Ofurforstjórinn mun fá miklu meira en þetta, herra forseti. Því er alveg ljóst, samkvæmt því sem liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar, að verið er að fara ranga leið að því er við í Samfylkingunni teljum.

Ég vek eftirtekt á því að fyrir síðustu kosningar var ákveðinn samhljómur hvað þetta varðaði millum Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn taldi líka í kosningabaráttu sinni að þetta væri leið sem ætti að skoða til þrautar vegna þess að með þessum hætti væri verið að koma fram skattalækkunum sem kæmu þeim best sem þyrftu mest á að halda og ykju kaupmátt þeirra því meira en annarra og það var auðvitað guðsþakkarvert að annar stjórnmálaflokkur en bara við í stjórnarandstöðunni skyldi tala með þessum hætti.

Lækkun matarverðs hefur verið á dagskrá Samfylkingarinnar og reyndar annarra stjórnmálaflokka ákaflega lengi. Því miður er það staðreynd að dýrtíð á íslenskum matvælum er einhver sú mesta í heimi. Fyrir skömmu voru lagðar hér fram upplýsingar í þingmáli sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir var 1. flutningsmaður að, þar sem reifaðar voru niðurstöður könnunar sem norska hagstofan hafði gert, ég hygg árið 2000, á matvælaverði innan ýmissa landa Evrópusambandsins og landa utan þess. Það kom í ljós að matarverð á Íslandi var 69% hærra að meðaltali en viðmiðunarlanda innan Evrópusambandsins. Reyndar kom líka í ljós að að því er varðar matarverð í Noregi þá er munurinn 62%. Það var auðvitað sláandi að þessi tvö lönd standa utan Evrópusambandsins. Við höfum nú sagt það í Samfylkingunni að ein leiðin til þess að lækka matarverð á Íslandi væri að Ísland yrði fullgildur aðili að Evrópusambandinu, en ég ætla ekki út í þá umræðu núna.

Ég ætla hins vegar að rifja það upp að þingsályktunartillaga hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og félaga var samþykkt. Hún fól í sér úttekt Hagfræðistofnunar á orsökum hás matarverðs á Íslandi. Það kom í ljós að ein helsta orsökin var einmitt sú háa skattlagning sem er á matvælum hér á landi. Ein leið, ef efndir eiga að fylgja orðum og hugur máli, til þess að lækka matarverð er að skoða hvernig hægt sé að lækka opinber gjöld á matvælum.

Á sínum tíma þegar núverandi kerfi var komið á fót stóðu hér harðar deilur um matarskattinn og það hugtak spannst raunar út úr þeim umræðum. Þá ákváðu menn, til þess að koma til móts við þá sem helst þurftu á liðsinni að halda, að hafa tvö þrep í virðisaukaskatti. Í reynd má segja að núna sé kerfið byggt upp á þremur þrepum. Hin almenna regla er sú að virðisaukaskatturinn sé 24,5%. En það kemur jafnframt fram að ákveðnar vörur og reyndar fjölmargir flokkar varnings og þjónustu eru undanskildir þeim skatti og bera þess vegna í reynd 0% skatt. Jafnframt fóru menn þá leið að búa til sérstakt þrep sem hafði einungis 14% virðisaukaskatt. Í þetta þrep settu menn þær brýnu nauðþurftir sem ég rakti áðan. Þær eru reyndar allar raktar í fylgiskjali með þessu frumvarpi hérna. En við teljum að ganga þurfi lengra í þessu efni og erum þess vegna þeirrar skoðunar að nota eigi svigrúmið sem er að skapast til skattalækkana til þess að lækka þetta lægra virðisaukaskattsþrep úr 14% niður í 7%.

Nú vil ég geta þess líka að í viðkomandi lagagrein virðisaukaskattslaganna eru taldir upp nokkrir aðrir flokkar þjónustu sem falla ekki beinlínis undir lífsnauðsynjar matvælakyns og eru þarna líka í 14%. Það er okkar tillaga að þeir fylgi þessari lækkun ef frumvarpið verður samþykkt. Ástæðan er ekki síst sú að við höfum hlustað á það sem sumir menn hafa sagt, m.a. hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, um nauðsyn þess að gera ekkert sem flækir kerfið. Það væri of í lagt að búa til fjögur þrep sem hefði þó orðið ef það sem er núna í lægra virðisaukaskattsþrepinu hefði ekki allt verið látið fylgjast að.

Herra forseti. Ef þetta frumvarp verður samþykkt þá mun það lækka matarreikning Íslendinga um ríflega 5 milljarða kr. Við teljum að svigrúm sé að skapast til þess og teljum að þetta sé heppilegasta form skattalækkana á þessu stigi.