131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[14:45]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hygg að fáar breytingar á skattalögunum mundu skila sér eins í vasa lágtekjufólks og fólks með meðaltekjur og sú breyting sem við ræðum nú um breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Mig undrar það reyndar, herra forseti, að ágreiningur skuli vera á milli stjórnarflokkanna um að fara þessa leið og að það skuli vera Framsóknarflokkurinn sem standi í vegi fyrir að hægt sé að fara þá leið að lækka virðisaukaskatt á matvælum. Það færi betur á því ef fleiri þingmenn Framsóknarflokksins væru hér til svara í þessu máli og tækju þátt í umræðunni.

Eins og fram hefur komið í máli þeirra sem talað hafa á undan mér er matvælaverð hvað hæst hér á landi og matvælaverð skiptir miklu máli í kjörum sérstaklega lágtekjufólks, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Skattlagning er ekki síst meðal helstu orsaka hás matarverðs á Íslandi en fram hefur komið að lækka megi matvælaverð um 30% ef farin yrði sú leið sem við leggjum til.

Einnig hefur komið fram að matarverð hér er 69% hærra að meðaltali en í 15 löndum Evrópusambandsins og það eru ekki síst matvörur sem miklu skipta fyrir lágtekjufólk að verði lækkaðar í verði, t.d. brauðvörur sem eru 80% ódýrari í samanburðarlöndunum en hér á landi og kjötvörur um 74% dýrari á Íslandi. Því er mjög mikilvægt að við hér á þingi skoðum með jákvæðum og opnum hug þá leið sem hér er lögð til.

Ég vil líka nefna að við höfum séð að verkalýðshreyfingin hefur verið að brýna klærnar. Hún hefur verið að setja það fram með réttu að forsendur kjarasamninga gætu verið að bresta vegna þeirrar þenslu sem ríkir í þjóðfélaginu. Verðbólgan mælist hærri en menn gerðu ráð fyrir og hærri en verðbólgumarkmið Seðlabankans eða um 3,5%. Eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, þýðir þetta verulega lækkun á neysluvísitölunni ef þessi leið væri farin, eða 0,8%, og gæti haft verulega þýðingu, kannski ekkert meira til að lækka verðbólguna en að fara þessa leið. Því hefði ég viljað sjá að stjórnarflokkarnir hefðu sett þetta mál í forgang, að lækka virðisaukaskatt á matvæli frekar en fara nú þá leið að fara í flata lækkun á tekjuskattinum sem margoft hefur verið sýnt fram á að skilar sér miklu meira í vasa hátekjufólks en lágtekjufólks og reyndar skilar þetta örlitlu í vasa lágtekjufólks.

Mig langar aðeins að fara yfir það, virðulegi forseti, að mjög miklu máli skiptir fyrir heimilin í landinu hvernig skattastefnan er og það er afar mikilvægt að hún byggi á jafnræði og sanngirni vegna þess að hún er mjög mikilvægt tæki til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu. Og það er eins og allar leiðir sem núverandi ríkisstjórn velur, bæði á fyrra kjörtímabili og þessu, miði að því að skila meira í vasa þeirra sem betur hafa það en til fólks með meðaltekjur eða minni tekjur. Ég hefði haldið, virðulegi forseti, að frekar væri komið að þeim sem minni hafa tekjurnar en að vera sífellt að bæta í vasa þeirra sem mest hafa fyrir. Ég hefði gjarnan viljað sjá hæstv. félagsmálaráðherra við umræðuna og hæstv. fjármálaráðherra þegar við ræðum skattamálin og mál sem skiptir miklu fyrir fólk með lágar tekjur, vegna þess að mjög stór hópur fólks er undir skilgreindum fátæktarmörkum í þjóðfélaginu. Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem Félagsvísindastofnun setti fram á sínum tíma er stærsti hópur fátækra í okkar þjóðfélagi samanborið við þjóðfélögin á Norðurlöndum og teljast mér svo til að hér sé um að ræða 18–20 þúsund manns sem lifa undir skilgreindum lágmarkseyri og þá er miðað við þá skilgreiningu sem félagsmálaráðuneytið hefur sett fram, að um 40–50 þús. kr. vantar til að þessi hópur hafi sér til framfærslu það sem félagsmálaráðuneytið hefur sett fram að væri lágmarksframfærsla. Fyrir þennan hóp skiptir miklu máli að tekið sé á skattamálunum með þeirri leið sem við viljum fara.

Ríkisstjórnin gengur jafnvel svo langt að hún skattleggur fjárhagsaðstoð sem þetta fátækasta fólk hefur. Ef það á ekki fyrir mat út mánuðinn þarf það að leita til Félagsmálastofnunar og fjárhagsaðstoðin þar hefur blásið mjög mikið út á umliðnum árum m.a. vegna þess að atvinnulausir hafa þurft að búa við skertar atvinnuleysisbætur þó þær hafi nokkuð verið hækkaðar á þessu ári fyrir tilstuðlan verkalýðshreyfingarinnar og m.a. vegna þess að lífeyrisþegar hafa ekki fengið það sama í sinn hlut og þeir sem eru á lágmarkslaunum og munar þar um helming. Ef t.d. kaupmáttur lífeyrisþega hefði fylgt launaþróuninni væri framfærslueyrir lífeyrisþega um 17 þús. kr. hærri en hann er í dag. Þess vegna er mjög sérkennilegt að verið sé að skattleggja fjárhagsaðstoðina og líka ef litið er til þess, virðulegi forseti, að um 29 þúsund manns skuli vera á tekjubilinu frá skattleysismörkum eða um 72 þús. kr., með tekjur sér til framfærslu upp að 100 þús. kr. Það fólk sem er með þessar tekjur sér til framfærslu, þ.e. frá 72 þús. kr. á mánuði upp í 100 þús. kr., er skattlagt, virðulegi forseti. Þessi hópur sem telur 29 þúsund manns þarf að greiða rúma 2 milljarða í skatt til samfélagsins á ári, hvorki meira né minna en rúma 2 milljarða. Þessi sami hópur greiddi engan skatt til samfélagsins af hlutfallslega sömu tekjum fyrir nokkrum árum en nú er maðurinn með 100 þús. kr. farinn að greiða skatta sem hlutfall tekna um 11 þúsund kr. á mánuði. Það er þessi hópur, sem er með 100 þúsund krónurnar, sem fær einungis 1 þús. kr. í sinn hlut af þeirri 4% lækkun sem stefnt er að á kjörtímabilinu. Það er allt og sumt, maðurinn með 100 þús. kr. fær 1 þús. kr. í sinn hlut.

Það er auðvitað hægt að taka þetta, virðulegi forseti, til samanburðar við það sem fram kemur núna í skattagögnum fyrir árið 2004, að 1% ríkustu einstaklingarnir hér á landi sem telja rúmlega 500 manns höfðu nálægt 88% af tekjum sínum í fjármagnstekjuskatt eða 54 milljónir og 7 milljónir í launatekjur. Þeir greiða að meðaltali aðeins 12% af heildartekjum sínum í skatt meðan fólk með lágar tekjur greiðir 25–27% að meðaltali. Framfærslu sína hafa þeir mest af fjármagnstekjuskatti og greiða því hlutfallslega langtum, langtum minna til samfélagsins en hópar í þjóðfélaginu sem eru með lágar eða miðlungstekjur. Og þetta kalla ég ósanngirni í skattlagningu. Það væri hægt að fara miklu skynsamlegri leið að því er varðar fjármagnstekjuskattinn. Ég bendi á, virðulegi forseti, að ef fjármagnstekjuskatturinn yrði hækkaður í t.d. 15% og við hefðum ákveðin frítekjumörk eins og 100 þús. kr. fyrir einstaklinga og 200 þús. kr. fyrir hjón þá væri hægt að fækka þeim 74 þúsund manns sem greiða fjármagnstekjuskatt um 46 þúsund, niður í 28 þúsund manns. 74 þúsund manns sem núna greiða fjármagnstekjuskatt færu niður í 28 þúsund einstaklinga sem borguðu þá ekkert af hóflegum sparnaði meðan þeir sem meira hefðu fyrir greiddu til samfélagsins. Og engu að síður væri hægt að skila inn í ríkissjóð með þessari breytingu, 15%, og hafa ákveðið frítekjumark þannig að þótt 46 þúsund manns slyppu við að greiða fjármagnstekjuskatt, þá fengi ríkissjóður 2 milljarða í viðbótartekjur. Það eru akkúrat þessir tveir milljarðar sem fátækasta fólkið er að greiða sem er með á bilinu 72 þús. kr. til 100 þús. kr., það er að greiða 2 milljarða í skatt af sínum litlu tekjum sem duga ekki nema hluta af mánuðinum og þá peninga gætum við fengið með því að fara með fjármagnstekjuskattinn í 15% og hafa ákveðið frítekjumark sem fækkaði líka verulega þeim sem greiddu fjármagnstekjuskatt.

Við getum líka litið til þess, virðulegi forseti, þegar við skoðum jafnræði í skattlagningu að tveir þriðju af öllum fjármagnstekjum hjóna eða 32 milljarðar renna til 1% þeirra sem mestar fjármagnstekjur höfðu eða 500–600 manns. 500–600 manns, hjón og sambúðarfólk, hafa í fjármagnstekjur 32 milljarða og þrír fjórðu af fjármagnstekjum einstaklinga eða um 11 milljarðar renna til nokkur hundraða einstaklinga eða 1% tekjuhæstu í hópi einstaklinga sem greiða fjármagnstekjuskatt. Þetta eru staðreyndirnar sem við höfum fyrir framan okkur. Og það er þessi hópur sem ríkisstjórnin er alltaf að bæta kjörin hjá með breytingu í skattlagningu og mun gera með þeirri breytingu sem fram undan er núna í lækkun á tekjuskatti.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fór áðan ágætlega yfir áformin á næsta ári sem eiga að kosta ríkissjóð 5 milljarða kr. Helmingurinn, eða 2,5 milljarðar, rennur í vasa 25 tekjuhæstu einstaklinganna. En hvað fá 25 tekjulægstu einstaklingarnir af þessu? 300 milljónir af 2,5 milljörðum. 25 tekjulægstu einstaklingarnir fá ekki krónu en hjón fá 300 milljónir af þessum skattalækkunum sem fylla 25% í tekjulægsta hópnum meðan 25 tekjuhæstu fá helminginn. Þannig er nú réttlæti núverandi ríkisstjórnar. Þannig skiptir hún því sem til skiptanna er. Og raunar er það þannig, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin hefur þegar á þessu ári skattlagt með einum eða öðrum hætti þjóðfélagsþegnana upp á 4 milljarða. Hún ætlar að skila 5 milljörðum af þeim á næsta ári. Þegar litið er til þess að skattlagning á þessu ári er 4 milljarðar, sem ég ætla fara yfir á eftir, og það er þá á heilu kjörtímabili 16 milljarðar og ríkisstjórnin ætlar að skila 20 milljörðum aftur á kjörtímabilinu þá er það einungis nettó sem hún skilar í skattalækkunum um 4 milljarðar. Það er allt og sumt. Þetta eru engir 20 milljarðar. Þetta er enn einn blekkingarleikurinn hjá ríkisstjórninni. Og síðan til viðbótar renna þeir 4 milljarðar sem eftir standa til þeirra betur settu.

Lítum bara á skattlagninguna á þessu ári. Álögur á bifreiðaeigendur eru upp á 1.000 milljónir. Gjaldtaka á sjúklinga, sem er ekkert annað en skattlagning, var upp á 740 milljónir. Skattleysismörkin voru skert og voru miðuð við 2,5% þegar launaþróunin var 5% og það er þannig sem ríkisstjórnin hefur haft fullt af peningum gegnum árin með því að skerða skattleysismörkin, taka frá þeim sem helst nýtast best þessi skattleysismörk og færa til þeirra tekjuhærri. Það sem ríkisstjórnin er raunverulega að gera er að hún er að færa í sífellt meira mæli skatta af fjármagnseigendum og eignum yfir á vinnuafl og launatekjur. Á þessu ári, ég sagði 4 milljarðar, 1.000 milljónir sem álögur á bifreiðaeigendur, gjaldtaka á sjúklinga 740 milljónir, skattleysismörkin skert, skerðing á vaxtabótum um 600 milljónir, afnám á séreignarsparnaði sem hækkaði tekjuskattinn um 600 milljónir. Ríkisstjórnin er þegar búin að ná sér inn á þessu ári 4 milljarða af þeim 5 milljörðum sem hún ætlar að skila á næsta ári. Raunverulega er það svo þegar ríkisstjórnin fer í tekjuskattslækkanir upp á 4 milljarða, þá er hluti af því sem skilar sér aftur upp í aukinni eyðslu og þá frekari sköttum sem kemur inn til ríkissjóðs. Ég sé því ekki að það sé mikið sem ríkisstjórnin skilar til baka til fólksins í formi skattalækkana.

Við getum líka litið til þess, virðulegi forseti, að það er ekki hægt sjá á fjárlögunum að það eigi nokkuð að gera í barnabótum. Ég spyr: Hverju á fólk von á að því er varðar breytingar á barnabótum? Fólkið í landinu sem kaus Framsóknarflokkinn á síðasta kjörtímabili og kjörtímabilinu þar áður á enn þá inni hjá Framsóknarflokknum. Hann hefur ekki staðið við skattaloforð um að hækka ótekjutengdar barnabætur hjá öllum upp í 30 þús. kr. Barnabæturnar eru raunverulega lægri að raungildi en þær voru 1995. Þá voru barnabætur greiddar með börnum að 16 ára aldri en eru núna einungis greiddar með börnum að sjö ára aldri.

Það væri því fróðlegt að vita — vegna þess að það gagnast barnafjölskyldum virkilega að hækka barnabæturnar og Ísland er nú meðal örfárra Evrópuþjóða sem tekjutengja barnabætur — hvað ríkisstjórnin ætlar að gera og þá sérstaklega Framsóknarflokkurinn til þess að efna það loforð sem kjósendum var gefið á sínum tíma.

Ef við förum aðeins yfir vaxtabæturnar, virðulegi forseti, þá verður ekki séð annað en að á fjárlögum fyrir næsta ár eigi enn að höggva í sama knérunn og skerða vaxtabæturnar frekar. Þær voru skertar um 600 milljónir á þessu ári og enn á að lækka þakið sem er heimilt að nýta varðandi vaxtaútgjöldin, sem kemur illa niður á fólki með lágar og meðaltekjur. Og þó að vísað sé í að vextir hafi verið að lækka þá er stór hópur fólks enn þá með vexti sem eru milli 5% og 6%. Það þýðir því ekki að horfa í að það sé vegna þess að vextir séu að lækka í þjóðfélaginu, þetta kemur niður á fólki sem er að koma sér þaki yfir höfuðið, og ekki síst þegar ríkisstjórnin vill ekki fara út í það sem ég man ekki betur en stjórnarflokkarnir hefðu lofað, þ.e. að afnema stimpilgjöldin.

Það er ekki einu sinni hægt að fara þá leið að breyta skattalögum í þá veru að taka ekki tvisvar stimpilgjald af sama láninu ef fólk er að breyta því í hagstæðari lán og endurfjármagna lánasúpu sína. Nei, nei, ef fólk hefur tekið lán hjá Íbúðalánasjóði fyrir tveim árum síðan og vill síðan fara og skuldbreyta því í annarri lánastofnun af einhverri ástæðu þá greiðir það aftur stimpilgjald af sama láninu. Enda hefur það komið fram núna, bara einungis hjá sýslumanninum í Reykjavík, að aukning í stimpilgjöldum hefur orðið 127% þegar miðað er við september á þessu ári og september á árinu á undan. Og ég vil minna á að lækkun á stimpilgjöldum gagnast ekki síst atvinnulífinu og atvinnuvegunum, og minni og meðalstórum fyrirtækjum sem eiga óhægara um vik að taka lán erlendis en stærri fyrirtækin.

Það er atvinnulífið sem kallar á þessa skattalagabreytingu, þ.e. lækkun á stimpilgjöldunum, þannig að þær leiðir sem við leggjum til að fara eru númer eitt, tvö og þrjú að breyta lögum um virðisaukaskatt og lækka hann úr 14% í 7%, sem ég skildi í kosningabaráttunni að Sjálfstæðisflokkurinn væri sammála. Væri fróðlegt að fá það upp við þessa umræðu hvort það sé ágreiningur milli stjórnarflokkanna, eins og maður gæti haldið, um að fara þessa leið. Og þá spyr maður: Af hverju er hún ekki sett í forgang? Segjum svo að Framsóknarflokkurinn vilji kannski fara þessa leið, af hverju er þetta ekki sett í forgang þegar það skilar sér tvímælalaust betur til allra tekjuhópa og er mjög jákvætt innlegg inn í umræðuna sem er að fara af stað um það að forsendur kjarasamninga séu að bresta? Þetta er sama fjárhæð, við erum ekki að tala um hærri fjárhæð á næsta ári en ríkisstjórnin ætlar að verja til skattalækkana, þess vegna undrar mig þessi forgangur og þó ekki — vegna þess að þetta er auðvitað í takt við annað sem hefur verið uppi hjá þessari ríkisstjórn, þ.e. að gera betur við þá sem mest hafa fyrir og hún virðist ekki ætla að breyta út af þeirri stefnu sinni. Og þó að Framsóknarflokkurinn sé kominn með forustu í þessari ríkisstjórn þá sér maður engar breytingar í skattastefnunni í þá átt að gera betur við þá sem hafa lágar og meðaltekjur en vera ekki sífellt að færa fjármagn í vasa þeirra ríkustu og efnamestu í þjóðfélaginu.