131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[15:11]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka að það er alveg ljóst að hv. þm. hefur ekki haft fyrir því að kynna sér skýrslur og gögn sem hafa legið fyrir um þetta mál. Matarverð hér er 69% hærra að meðaltali en í 15 löndum Evrópusambandsins. Hefur nokkur mótmælt því?

Það liggur líka fyrir að skattlagningin er helsta orsök hás matarverðs á Íslandi. Með því að lækka virðisaukaskatt á nauðþurftum eins og mjólk, kjöti, fiski og brauði úr 14% í 7% þá er hægt að lækka matarverð um 30%. (Gripið fram í.) Með því að fara þessa leið sem við erum að tala um. Og ég skora á hv. þm. að kynna sér það, fara ofan í skýrslurnar og gögnin sem liggja fyrir um þessi mál. Hann er ekkert of góður til þess, hæstv. forseti, (Gripið fram í.) þegar hann blandar sér hér í umræðuna að kynna sér málið. Þetta eru þeir útreikningar sem liggja fyrir um þessi mál og það er fyrst og fremst vegna mikillar skattlagningar á matvæli að verð á þeim er miklu hærra en gerist og gengur í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Ég held að hv. þm. og ríkisstjórn hans ættu að reyna að skoða það að það eru fleiri sem þurfa að lifa í þessu þjóðfélagi en þeir ríkustu. Ég spyr hv. þm.: Gerir hann sér grein fyrir því hvað það er stór hópur hér í þjóðfélaginu sem þarf að lifa af sultarlaunum og ríkisstjórnin er að taka skatt af, eins og 29 þúsund manns sem þurfa að greiða tvo milljarða á ári í skatt til þessarar ríkisstjórnar meðan hún hlífir þeim tekjuhæstu?

Það er einmitt vegna þess hvernig þessi ríkisstjórn kemur fram af ójafnræði og ósanngirni gagnvart fólki að það er mikilvægt að koma henni frá.

Þess vegna verður auðvitað fróðlegt að fylgjast með þegar við förum að fjalla um þetta mál hvort hægt sé að sannfæra hv. þm. um það að þetta er besta leiðin sem við förum, þ.e. að lækka virðisaukaskatt á matvæli.