131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[15:13]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði hér í ræðu sinni að Framsóknarflokkurinn stæði í vegi fyrir lækkun matarskatts. Mér þótti tilefni til að koma hér upp og leiðrétta þetta og upplýsa hv. þm. um að yfir stendur endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu eins og það leggur sig og inni í þessari endurskoðun er allt undir. Menn hafa ekki komið sér saman um hvort um er að ræða flata lækkun, fleiri þrep eða hvort ákveðnir flokkar verða teknir fyrir svo sem eins og matarskattur. Framsóknarflokkurinn talaði um barnavörur, stimpilgjöld o.fl.

Þessi vinna er því í eðlilegum farvegi og allt tal um að Framsóknarflokkurinn standi í vegi fyrir lækkun matarskatts er úr lausu lofti gripið og á ekki við nein rök að styðjast. Ég vil ítreka það hér að það er enginn ágreiningur á milli stjórnarflokkanna í þessu máli og við munum að sjálfsögðu halda þessari vinnu áfram.