131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[15:14]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig gott að hér er upplýst að Framsóknarflokkurinn stendur ekki í vegi fyrir lækkun virðisaukaskatts á matvæli en þetta er auðvitað spurning um forgang. Stjórnarflokkarnir hafa gefið út að þeir ætli að verja 20 milljörðum kr. í skattalækkanir. Útreikningar sýna að það að lækka skattinn í 4% kostar 20 milljarða kr. og sennilega kostar það meira ef skattleysismörkin fylgja launaþróun. Þess vegna gleðst ég yfir því ef verið er að skoða það að lækka virðisaukaskatt á matvæli og jafnvel stimpilgjöld. Og þá spyr ég: Er hugmyndin sú að það komi í staðinn fyrir eitthvað af þessari 4% lækkun, þeim 20 milljörðum sem á að eyða í skattalækkanir eða er hv. þm. að tala um viðbót í því sambandi? Það er ekki hægt að eyða sömu peningunum tvisvar í mismunandi tegundir af skattalækkunum. Þetta snýst líka, virðulegur þingmaður, um forgangsröðun. Er það svo að forgangur framsóknarmanna beinist að því að lækka almennan tekjuskatt um 4% sem skilar sér þannig að helmingurinn af þeirri lækkun rennur til 25% af efnamesta fólkinu í landinu? Er það forgangurinn sem Framsóknarflokkurinn vill sýna eða vill hann fara í þann forgang sem ég hélt að hann stæði fyrir, að vilja lækka virðisaukaskatt á matvæli og hækka barnabætur? Það er ekki hægt að komast fram hjá því að Framsóknarflokkurinn hefur svikið fólk varðandi barnabæturnar og ég spyr því: Eiga barnabætur og lækkun á matvælaskatti að koma í staðinn fyrir eitthvað af þeirri 4% lækkun sem ríkisstjórnin stefnir að og hefur gefið út á þessu kjörtímabili?