131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[15:16]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg skýrt að ríkisstjórnin hefur sett fram langtímamarkmið og þau markmið standa. Forgangsröðunin hjá okkur í því er alveg skýr, við förum fyrst í tekjuskattslækkunina. Ef umræða um lækkun virðisaukaskatts á matvælum er inni í þessari nefnd, sem ég geri fastlega ráð fyrir, þá mun það ekki koma í staðinn fyrir neitt annað, a.m.k. ekki eins og staðan er í dag höfum við ekki vikið frá markmiðum okkar um lækkun tekjuskattsprósentu.

Það er alveg ljóst að í þessari langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar er einnig gert ráð fyrir 3 milljörðum í barnabætur og önnur verkefni og mun koma í ljós á næstunni hvernig það verður útfært.

Það er mín persónulega skoðun að leiðin til að koma peningum til barnafólks er í gegnum barnabæturnar en ekki í gegnum virðisaukaskattskerfið. Ég held að það sé mun skilvirkari leið. Þess vegna hefur ríkisstjórnin einmitt ákveðið það að þessi 3 milljarða pottur muni að mestu fara í barnabæturnar.