131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[15:40]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að koma upp og taka þátt í umræðunni. Ég get staðfest að einmitt þegar hv. þm. stóð í ræðustól þá kunni hann að telja en við umræðuna í dag hafa verið fleiri þingmenn úr stjórnarandstöðu en úr stjórnarliði.

Ég velti fyrir mér til hvers hv. þm. kom upp í andsvar við mig. Hann fór yfir eitthvað sem hann kallaði menntaskólastærðfræði og gerði lítið úr. Það skiptir ekki öllu máli, hæstv. forseti, hvað menn vilja kalla það sem hér er sett fram. Mér er alveg sama hvað menn vilja kalla það svo lengi sem við komum því í gegn að lækka matarverð á Íslandi með því að lækka álögur á matvæli. Það skilar sér til þeirra sem minnst hafa. Þá má hv. þm. skemmta sér eins og hann vill við að kalla þetta þeim nöfnum sem honum dettur í hug.

Rétt væri kannski, úr því að hv. þm. er farinn að taka þátt í umræðunni, að upplýsa okkur um það hvort það er rétt sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt og hvort það sé rétt sem skilja hefur mátt á orðum annarra þingmanna Sjálfstæðisflokks að Framsóknarflokkurinn þvælist fyrir því að virðisaukaskatturinn sé lækkaður. Það stendur í stjórnarsáttmálanum að það skuli tekið til athugunar að lækka virðisaukaskatt. Það hefur verið sagt við okkur sem hér erum að að því muni koma en bakslagið í þeim seglum virðist, eftir því sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt í umræðum, að Framsóknarflokkurinn þvælist fyrir málinu.

Gott væri að hv. þm. nýtti tækifærið þegar hann kemur upp og segði okkur hvort þetta sé rétt. Þetta er tiltölulega einföld spurning og það er hægt að svara henni með já eða nei þess vegna.