131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[15:43]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er erfitt að standa í einhverjum hártogunum og deilum við stærðfræðinginn um útreikninga. En einstaklingum með 500 þús. kr. mánaðarlaun borga í dag í útsvar, tekjuskatt og sérstakan tekjuskatt 170.186 kr. Það er það sem hann borgar í dag. Eftir að búið er að lækka flatan tekjuskatt um 1%, skattprósentuna um 1% og hv. þm. má ekki gleyma því að það á líka að lækka sérstakan tekjuskatt um 2%, það kemur inn í þennan útreikning miðað við 500 þús. kr. laun hjá einstaklingi. Eftir að sú breyting er komin í gegn hjá ríkisstjórninni mun þýða að sami einstaklingur og borgaði rúmar 170 þús. kr. í skatt kemur til með að borga 160.281. Það er sparnaður upp á 7 þús. kr. á mánuði fyrir mann með þær tekjur. Þessar tölur eru á hreinu þegar menn fara í gegnum þær tillögur sem liggja fyrir og reikna þær út eins og þær standa.

Ég hjó eftir því hjá hv. þm. að hann sagði að meiri hluti þjóðarinnar hefði fjölskyldutekjur yfir 360 þús. kr. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef séð um framtöl einstaklinga og hjóna þá er það ansi langt frá þessari tölu. En ég ætla ekki að rengja hann þar sem ég hef ekki þær upplýsingar fyrir framan mig. Ég vil tala út frá staðreyndum sem hægt er að skoða og fara yfir.

Ég mun að sjálfsögðu skoða það í framhaldi af orðum hv. þm. hvort þetta geti verið. Í framhaldi af því mundi ég væntanlega að biðja hv. þm. um að leiða þennan meiri hluta þjóðarinnar fram þannig að við getum séð fyrir okkur á Austurvelli þann fjölda sem hefur fjölskyldutekjur yfir 360 þús. kr. á mánuði.