131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:10]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það ætti ekki að koma neinum á óvart, sagði hv. þm. Ég hugsa að það kæmi mörgum hressilega á óvart ef flokkurinn stæði við þessi loforð sín eftir öll þessi ár og eftir að saumað hefur verið að honum inni á þingi ár eftir ár. Alltaf er það samt svikið þótt eitthvað annað sem er ekki eins mikilvægt sé efnt.

Árið 2007 og langtímamarkmiðin hafa verið rædd hérna. Við skulum vona að Framsóknarflokkurinn verði kominn út úr ríkisstjórn árið 2007. Ef ríkisstjórnin situr út kjörtímabilið mun hún sitja til ársins 2007. Þá verður kosið aftur á vordögum þess herrans árs og kannski fögnum við því um leið og við höldum upp á 12 ára afmæli þess margsvikna barnabótaloforðs. Þá fögnum við því kannski líka að Framsóknarflokkurinn verði kominn út úr ríkisstjórn. Ég veit það ekki. Þá verða liðin 12 ár frá því að hann gekk í hjónabandið með Sjálfstæðisflokknum og má kannski ræða það sérstaklega hérna síðar.

Kannski þyrftum við að taka sérstaka umræðu um það hvað varð af Framsóknarflokknum og áherslum hans. Eins og hv. þm. Jón Gunnarsson benti á söknum við félagshyggjumennirnir gamla góða félagshyggju-Framsóknarflokksins sem var nokkuð áberandi undir forsæti Steingríms Hermannssonar um árið en hefur bókstaflega orðið að engu. Einhver nefndi það í umræðum um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra á dögunum að hann væri eins og dauft ljósrit af Sjálfstæðisflokknum.

Ég vona að flokkurinn reki af sér slyðruorðið á næstu missirum. Fátt bendir þó til þess ef mið er tekið af fyrstu skrefum hæstv. forsætisráðherra og því eina stóra máli sem fram hefur komið, þ.e. því að lækka álögur á þá efnuðustu í landinu og skilja barnafjölskyldurnar og fátæka fólkið eftir með sviknu loforðin í fanginu, a.m.k. til ársins 2007. Mér skilst að hæstv. forsætisráðherra hafi lýst því yfir við fréttamenn fyrr í dag.